20.12.2012

Úrslit í hugmyndasamkeppni um umhverfi GullfossOpin hugmyndasamkeppni var haldin á vegum Umhverfisstofnunar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um umhverfi Gullfoss. Dómnefnd hefur lokið störfum og verðlaunaafhending fór fram í gær, fimmtudaginn 20. des. Rýnifundur verður í Norræna húsinu 7. janúar 2013 klukkan 16:00.

Dómnefnd skipuðu: Formaður Kristín S. Jónssdóttir, arkitekt – fulltrúi Umhverfisstofnunar, Tryggvi Tryggvason, arkitekt FAÍ og fulltrúi AÍ, Inga Rut Gylfadóttir landslagsarkitekt FÍLA, Svavar Njarðarson, fulltrúi landeigenda og Pétur Ingi Haraldsson, fulltrúi Bláskógabyggðar.

1. Verðlaun hlaut tillagan: Aldir renna


Höfundar: Eyrún Margrét Stefánsdóttir arkitekt og María Björk Gunnarsdóttir arkitekt

Dómnefndarálit: Keppendur hafa greinilega sett sig vel inn í staðhætti. Heildarsýn er ágæt og rökstudd með nákvæmri staðháttargreiningu. Keppendur sýna í tillögunni nákvæman og blæbrigðaríkan skilning á umhverfinu.

Útsýnisstaðurinn Tómas er vel valinn m.t.t. útsýnis og fleiri þátta sem máli skipta. Leiðir að nýjum útsýnisstöðum og nýjum tengingum eru fjölbreyttar og spennandi og benda á nægan efnivið til úrvinnslu í framtíðinni. Tillaga að nýjum útsýnisstað umhverfis svonefndan Hvít er vel útfærð en heppilegt hefði verið að sjá tengingu til norðurs við aðra göngustíga.

2. Verðlaun hlaut tillagan: Hringferð um Gullfoss


Höfundar: R21 arkitekter: Bergur Thorsteinsson Briem arkitekt, Thomas Thorsnes arkitekt, Martin Smedsrud arkitekt

Dómnefndarálit: Keppendur hafa greinilega sett sig vel inn í staðhætti, þa.e. staðháttargreining er nákvæm og sýnir ítarlega landslagsgreiningu sem er til fyrirmyndar. Lausnin er einföld og sveigjanleg og gæti vel nýst sem fyrirmynd að lausnum á öðrum stöðum og í ólíku umhverfi. Tröppur og útsýnispallur virðast raunhæfar og traust mannvirki án þess að vera yfirþyrmandi.

3. Verðlaun hlaut tillagan: Gullfoss


Höfundar: Birgir Þröstur Jóhannsson arkitekt FAÍ, Laurent Ney verkfræðingur, Vincent Dister verkfræðingur, Snæfríð Þorsteins iðnhönnuður

Dómnefndarálit: „Svífandi göngustígar“ virðast burðarfræðilega vel útfærðir og samræmast vel tilgangi samkeppninnar um afturkræfni framkvæmda. Áhugavert er að endurvekja útsýnisstað við svonefnda Heljarbrú. Rökstuðning um efnisval m.t.t. sjálfbærni er haldgóður.

Sjá nánar á vef UmhverfisstofnunarMynd: Frá vinningstillögu Eyrúnar Margrétar Stefánsdóttur arkitekts og Maríu Bjarkar Gunnarsdóttur arkitekts.