8.11.2012

Samkeppnisúrslit | Batteríið Arkitektar vinna arkitektasamkeppni í NoregiBatteríið Arkitektar í samstarfi við arkitektastofuna Link Arkitektur í Bergen í Noregi unnu lokaða samkeppni um framtíðarsýn fyrir bæjarhlutann Fyllingsdalen í Bergen. Hinar tvær tillögurnar voru unnar af norsku arkitektastofunni Snøhetta og dönska arkitektastofunni BIG – Bjarke Ingels Group - hvoru tveggja heimsfrægum arkitektastofum.

Um er að ræða sex hektara svæði og er gert ráð fyrir að á því rísi þétt byggð verslana, skrifstofa og íbúða u.þ.b 150.000m2. Sóttur var innblástur í staðbundnar hefðir í arkitektúr eins og þær birtast t.d. í gömlu bryggjuhúsunum við höfnina í miðbæ Bergen og þau sérkenni túlkuð á nútímalegan hátt. Byggðarmynstur tillögunnar felur í sér verulegan sveigjanleika hvað varðar áfangaskil, þéttleika og framkvæmdaröðun. Hverfið mun tengjast „Bybanen“, nýja léttlestarkerfi Bergen. Þá skipa sjálfbærar skipulagslausnir ríkan sess í verðlaunatillögunni.

Batteríið Arkitektar hefur starfað í Noregi síðan 2009 og hannað þar fjölda bygginga – ýmist beint eða í samstarfi við aðrar arkitektastofur á vesturströnd Noregs, þar á meðal Link Arkitektur bæði í Stavanger og Bergen.

www.arkitekt.is