3.1.2012

Samkeppni um opnunaratriði Vetrarhátíðar í Reykjavík 2012Höfuðborgarstofa, Orkusalan og Hönnunarmiðstöð Íslands standa fyrir samkeppni um opnunaratriði Vetrarhátíðar í Reykjavík 2012.

Dómnefnd valdi úr innsendum tillögum og vinningstillöguna áttu þau Marcoz Zotes og Gerður Sveinsdóttir.
Verkið verður frumsýnt við opnun Vetrarhátíðar. 

Verkefnið

Verkefnið felst í að vekja athygli og ánægju íbúa Reykjavíkurborgar og gesta hennar með því að hanna opnunaratriði Vetrarhátíðar í Reykjavík 2012 á fjölförnum en óvæntum og spennandi stað í borgarrýminu. Sóst er eftir útiverki sem höfðar til almennings og inniheldur upplifun, gagnvirkni og gleði.

Markmið
Öflugt menningarlíf eykur lífsgæði borgarbúa og stuðlar að samfélagslegri velferð. Markmið verkefnisins er að styrkja Reykjavík sem krafmikla og skapandi borg sem einkennist af lifandi og spennandi umhverfi. Þar kemur að mikilvægi Vetrarhátíðar í Reykjavík en opnunaratriði hátíðarinnar á fjölförnum stað í borginni er liður í því að auka ánægju og upplifun borgarbúa í mesta vetrarmyrkrinu.

Sóst er eftir hverskonar opnunarverki með tengingu við rafmagn. Hugsa þarf verkið fyrir almenningsrými utandyra. Listaverkið þarf auk þess að geta staðið í a.m.k. mánuð og þarf að huga að því við efnisval. Nærvera verksins má vera fyrirferðamikil í rými og snerta skynfæri borgarbúa á mismunandi vegu. Það má gjarnan fela í sér einhverja gagnvirkni eða skynjun.

Fyrir hverja
Samkeppnin er opin öllum myndlistamönnum, hönnuðum, arkítektum, tónlistarmönnum, ljósamönnum, rafmagnsverkfræðingum eða öðrum þeim sem vinna með rafmagn og list í einhverju formi. Hvatt er til samstarfs milli ólíkra aðila og/eða listgreina. Miðað er við að höfundur/höfundar tillögu sem dómnefnd velur til útfærslu verði ráðinn til verksins.

Verðlaunafé
Verðlaunafé er 500.000. Greitt er fyrir þá tillögu sem valin verður í fyrsta sæti. Auk þess verður gerður samningur við vinningshafa um framkvæmd hugmyndarinnar.

Umsóknarferli

Áhersluatriði
Við úrvinnslu innsendra tillagna mun dómnefndin m.a. leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
  • Að verkið sé heildrænt og frumlegt og fari vel í því rými sem tillaga er gerð um
  • Að verkið endurspegli upplifun, gagnvirkni og gleði.
  • Að framleiðsla verksins rúmist innan þess tímaramma sem settur hefur verið
  • Mikilvægur þáttur í vali dómnefndar á vinningstillögu er áætlaður uppsetningarkostnaður. Höfuðborgarstofa og Orkusalan leggja til 1,4 milljón króna og þarf allur kostnaður við uppsetningu verksins að rúmast innan þess fjárhagsramma.

Skil gagna
Þátttakendur skulu skila eftirfarandi keppnisgögnum:
  • Skissum/teikningum af verki og hugmyndum að staðsetningu verks í borginni
  • Lýsingu á hugmynd, efnisvali og búnaði eftir því sem við á
  • Grófri fjárhagsáætlun sem tekur til helstu verkþátta og kostnaðarliða
  • Gróft tímaplan og verkáætlun

Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu Vetrarhátíð í Hönnunarmiðstöð Íslands, Vonarstræti 4b, 101 Reykjavík, fyrir kl. 12.00, föstudaginn 6. janúar 2012. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn höfundar, heimilisfang og símanúmer að koma fram. Tillögum skal skila útprentuðum á A4 blaði í lit (hámark 5 síður). Tillögur skulu einnig fylgja með á pdf-formati á diski.

Dómnefnd
Arnar Geir Ómarsson, grafískur hönnuður
Guja Dögg Hauksdóttir, candarch. arkitekt FAÍ
Sif Gunnarsdóttir, Höfuðborgarstofa

Með afhendingu á tillögu í samkeppni, telst þátttakandi samþykkja dómnefnd og keppnisgögn og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál.

Dómnefndin áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Keppnisritari
Ritari keppninnar er Haukur Már Hauksson. Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir 23. desember 2011 á veffangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum verður svarað og svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar www.honnunarmidstod.is 29. desember 2011.
Fyrirspurnir sem bárust og svör vð þeim er að finna hér.

Útgáfa
Verkkaupi mun kynna vinningstillögu í fjölmiðlum þar sem höfundi/höfunda verður getið svo og samstarfsfólki hans. Verkkaupi mun öðlast afnotarétt af verðlaunaðri tillögu á meðan á sýningartíma stendur.

Um Vetrarhátíð

Reykjavíkurborg hefur haldið Vetrarhátíð árlega frá árinu 2002. Hún fagnar ljósi og vetri með dagskrá sem tengist menning og listum, orku og atvinnulífi, félags- og skólastarfi, útivist og íþróttum, umhverfi og sögu. Hátíðin lýsir upp vetrarmyrkrið í febrúar með viðburðum og uppákomum af ýmsu tagi, stórum sem smáum, og gefur borgarbúum og gestum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sér að kostnaðarlausu.

Vetrarhátíð verður að þessu sinni haldin dagana 9. – 12. febrúar 2011 eða frá fimmtudegi til sunnudags. Þema ársins 2012 er Magnað Myrkur og speglast það í fjölmörgum viðburðum hátíðarinnar. Fastir liðir Vetrarhátíðar eru Safnanótt og Heimsdagur barna. Í burðarliðnum er einnig Sundlauganótt sem til stendur að halda í fyrsta sinn á Vetrarhátíð 2012.

Fyrirspurnir sem bárust og svör vð þeim er að finna hér.