20.6.2011

Hönnunarsamkeppni Icelandair



Icelandair og Hönnunarmiðstöð Íslands standa fyrir keppni um hönnun á nýjum matarumbúðum fyrir Icelandair.


Verkefnið:

Er að bæta og styrkja matarupplifun farþega Icelandair með nýju útliti og umbúðum og felst í því að hanna nýjar matarumbúðir fyrir kalda rétti sem boðnir eru farþegum Icelandair á Economy Comfort og Economy Class farþegarýmum.

Markmið:

Þjónustumarkmið Icelandair snýst um að auka gæði upplifunar farþega sinna. Þetta verkefni er mikilvægur liður í að ná því markmiði. Matartengd þjónusta Icelandair nær ekki upplifunarmarkmiðum sínum ef gæðum matarins er áfátt. Þar kemur að mikilvægi góðra umbúða. Umbúðir geta verið meira en ílát fyrir mat sem búnar eru til úr plasti eða pappír. Góðar og vel hannaðar umbúðir geta komið með nýja vídd í matarupplifunina.

Verðlaunafé:

Verðlaunahafi hlýtur að launum 1.000.000 kr. Auk þess verður gerður samningur við vinningshafa um nánari útfærslu hugmyndarinnar.
Önnur verðlaun: Gjafabréf frá Icelandair að verðmæti 300.000 kr.
Þriðju verðlaun: Gjafabréf frá Icelandair að verðmæti 100.000 kr.

Fyrir hverja:

Samkeppnin er öllum opin

Umsóknarferli:

Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu Icelandair-samkeppni auk dulnefnis í Hönnunarmiðstöð Íslands, Vonarstræti 4b, 101 Reykjavík, fyrir kl. 12.00, fimmtudaginn 15. september 2011. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn hönnuðar, heimilisfang og sími að koma fram.

Tillögum skal skila útprentuðum á A4 blaði í lit (hámark 5 síður). Tillögur skulu einnig fylgja með á pdf-formati á diski.

Úrslit samkeppninnar verð kynnt í lok september um leið og sýning á völdum tillögum fer fram.

Dómnefnd:

Einar Örn Steindórsson, Creative director hjá Íslensku auglýsingastofunni
Rannveig Eir Einarsdóttir, Director in-flight Safety & Service hjá Icelandair
Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður
Snæfríð Þorsteins, grafískur hönnuður
Garðar Eyjólfsson, konsept hönnuður

Keppnisritari:

Haukur Már Hauksson

Dómnefnd hefur rétt á að hafna öllum tillögum.


Um Icelandair:

Markaðsleg stefna Icelandair snýst um að farþegar þess upplifi íslenskan uppruna fyrirtækisins í allri þjónustu þess. Icelandair er stolt af því að heimamarkaður þess sé Ísland og að landið komi fram í nafni félagsins. Uppruni þess hjálpar félaginu líka að aðgreina sig í aukinni samkeppni á erlendum sem innlendum mörkuðum. Því er mikilvægt að þessi markaðslega stefna sé mjög skýr og að farþegar þess upplifi hana sterkt þegar þeir fljúga með Icelandair. Hvort sem það er kveðja flugfreyju/þjóns, íslenskar bíómyndir eða tónlist, íslenskukennsla á höfuðpúðum eða íslenskt hráefni í mat, þá er íslenskur uppruni félagsins grunnurinn í öllu starfi þess.

Nánari upplýsingar á icelandair.is

Nánari lýsing:

Hvað eiga umbúðirnar að geyma:

Kaldan mat sem framreiddur er á Comfort farrými og Economy farrými í vélum félagsins. Sem dæmi má nefna umbúðir utan um smurbrauð, kalda rétti s.s. kjúkling með grænmeti, salat, kleinur o.s.frv.

Stærðir:
Umbúðirnar þurfa að vera í hentugum stærðum til þess að þær megi raðast sem best í skúffur og sem flestar einingar komist fyrir í matarborð sem notuð eru í þjónustu um borð í vélum Icelandair. Rými í flugvélum er takmarkað og því er þessi þáttur afar mikilvægur í verkefninu.

Stærð á hverri skúffu er: lengd 37 cm | breidd 25 cm | hæð 10,5 cm. Í heilt matarborð komast 14 skúffur ef hæfilega er hlaðið í hverja skúffu
Stærðir á núverandi umbúðum eru eftirfarandi:
  • Samloka 20 x 12 x 4 cm
  • Langloka 30 x 8 x 4 cm
  • Grænmetisvefja 29 x 8 x 4 cm
  • Box fyrir heitan mat 28 x 19 x 6 cm
  • Box fyrir salat/pastasalat 17 x 16,5 x 5,5 cm
  • Box fyrir Sushi 16,5 x 14 x 4,3 cm

Kostnaður:
Kostnaðarþátturinn er mikilvægur í verkefninu þar sem Icelandair kaupir ríflega 700.000 einingar á ársgrundvelli og því mikilvægt að kostnaði sé haldið í lágmarki.

Kostnaður fyrir umbúðir pr. einingu skal reynt að halda eftir fremsta megni innan eftirfarandi marka: Samloka 15 kr. | Vefja 26 kr. | Kaldur matur 35 kr

Annað:
Um borð í flugvél er loftþrýstingur annar en á jörðu niðri og eiga umbúðir það til að bólgna upp ef ekki eru höfð loftgöt á þeim, mjög mikilvægt að hafa þetta í huga. Einnig væri æskilegt að umbúðirnar henti fyrir blandað vöruúrval, þ.e.a.s. að fleiri en ein tegund vöru geti verið i samskonar umbúðum (t.d. sama breidd en mismunandi lengd, langloka/croissant). Innihaldslýsingar og dagstimpill eru prentaðar á sama miða og nafn vörunnar er prentað á. Þessi miði þarf að vera ofan á vörunni en ekki til hliðar eða undir vörunni. Umbúðir verða að vera þannig gerðar að auðvelt sé að opna og loka.

Fyrirspurnir berist til keppnisritara, Hauks Más Haukssonar, haukur@honnunarmidstod.is fyrir 20. júní nk. Öllum spurningum verður svarað og svörin sett inn á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar.


Hér má hlaða niður öllum upplýsingum í pdf-skjölum:

Keppnislýsing

Kynning á keppninni

Icelandair - Brand Identity Standards

Myndefni

Fyrirspurnir:
Frestur til að senda fyrirspurnir var til 20. júní. Engar fyrirspurnir bárust fyrir þann tíma.