15.5.2011

Samkeppni | Auglýsing fyrir Sameinuðu þjóðirnar



Skilafrestur í auglýsingasamkeppni sem miðar að jafnrétti kynjanna og því að uppræta hvers kyns ofbeldi gegn konum rennur út á miðnætti, evrópskum tíma, 31. maí.

Fyrstu verðlaun eru 5000€ og verður sigurvegarinn valinn af dómnefnd skipaðri sérfræðingum á borð við Jacques Séguéla, varaforseta auglýsingarisans Havas og Stefán Einarsson, hönnunarstjóra Hvíta hússins sem sigraði í sams konar keppni Sameinuðu þjóðanna í fyrra.

Alþjóðlegt ráð samtaka gráfískra hönnuða, Icograda, (The International Council of Graphic Design Associations) hefur lagt blessun sína yfir reglur og fyrirkomulag keppninnar.

“Það var skemmtilegt fyrir mig sem Íslending, þegar Stefán Einarsson vann sams konar keppni gegn fátækt í heiminum í fyrra og ég sé enga ástæðu til að íslenskir hönnuðir láti ekki til sína taka að þessu sinni. Það er enn tæpur hálfur mánuður fyrir stefnu og það hafa aldrei þótt rök á Íslandi að lítill tími sé til stefnu!,” segir Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum.

Á síðasta ári bárust rúmlega tvö þúsund auglýsingar í samkeppnina og útlit er fyrir góða þátttöku nú því rúmlega átta hundruð auglýsingar frá 37 ríkjum hafa þegar borist. Þátttökurétt í keppninni hafa allir íbúar hinna 48 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í Evrópu. Samkeppnin hófst 8. mars og lýkur á miðnætti 31. Maí 2011.

Sigurvegarinn verður tilkynntur 25. nóvember á Alþjóðlegum baráttudegi til upprætingar ofbeldis gegn konum.

Sjá nánari upplýsingar á www.create4theun.eu

Að keppninni stendur UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu í samvinnu við Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Women) og upplýsingaskrifstofur SÞ um alla Evrópu. Samkeppnin sem nær til allra Evrópulanda er hluti af UNiTE, herferð Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til höfuðs ofbeldi gegn konum. Í keppninni eru Evrópubúar, jafnt atvinumenn sem áhugamenn, hvattir til að búa til auglýsingu sem segir “Nei við ofbeldi gegn konum.”

Nánari upplýsingar um samkeppnina veitir Árni Snævarr, snaevarr@unric.org