25.11.2010

Hönnunarverðlaun í Hörpu afhent



Í dag, fimmtudag 25. nóvember voru tilkynnt úrslit í hönnunarsamkeppni um húsgögn í almenningsrými í Hörpu. Samkeppnin var opin íslenskum hönnuðum og arkitektum og var haldin í samstarfi við Hönnunarmiðstöð.

Verðlaunin, að verðmæti ein milljón króna, hrepptu þær Kristín Aldan Guðmundsdóttir og Helga Sigurbjarnadóttir sem eru báðar innanhúsarkitektar FHÍ. Skilyrði í samkeppninni var að húsgögnin yrðu framleidd hér á landi og samstarfsaðilar þeirra um framleiðslu húsgagnanna eru GÁ húsgögn, Stjörnustál, Pelco og Pólýhúðun.

Í umsögn frá dómnefnd kemur fram að vinningshugmyndin byggi á fágaðri og svipmikilli hugmynd og falli afar vel að sterkum karakter hússins með hreyfanlegum formum sem bjóða upp á margvíslega notkun. Styrkur tillögunar felist ekki síst í einfaldleika hennar og sveigjanleika. Form og efnistök sýni að tekið sé tillit til hins mikla fjölda sem muni fara um Hörpu og gefi auk þess létt og leikandi yfirbragð í almenningsrýmin þar sem gestir geti tyllt sér á fjölbreytileg húsgögnin jafnt að degi til sem á kvöldin. Hugsað sé fyrir öllum aldursflokkum, ólíkum þörfum eftir viðburðum og að flókin úrlausnarefni séu leyst á hagkvæman og aðlaðandi hátt.

Verðlaunaafhendingin átti sér stað í Hörpu en húsið opnar í maí næstkomandi.

Einnig fengu tvær tillögur til viðbótar sérstaka viðurkenningu. Sú fyrri var frá Dóru Hansen, Heiðu Elínu Jónsdóttur og Þóru Birnu Björnsdóttur innanhúsarkitektum FHÍ en tillagan þótti djörf og vönduð með spennandi vali lita og efna. Sú síðari var frá Guðrúnu Margréti Ólafsdóttur og Oddgeir Þórðarsyni innanhúsarkitektum FHÍ hjá Go Form ehf en tillagan þótti glæsileg og bjóða upp á mikla möguleika með einföldum og afgerandi formum.

Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður rekstrarfélagsins Ago sagði í ræðu sinni við afhendinguna í dag að það væri gleðilegt að sjá hinn mikla metnað og hugmyndaauðgi sem íslenskir hönnuðir byggju yfir og tillögurnar bæru vitni um.

Alls tuttugu og þrjár tillögur bárust í samkeppnina en að henni var staðið af Eignarhaldsfélaginu Portus í samstarfi við Hönnunarmiðstöð.

Í dómnefnd sátu Osbjörn Jacobsen arkitekt frá Henning Larsen Architects, tilnefndur af Portusi, Soffía Valtýsdóttir, arkitekt frá Batteríinu, tilnefnd af Portusi, Katrin Ólína, hönnuður, frá Félagi vöruhönnuða tilnefnd af Hönnunarmiðstöð, Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaartikekt, frá Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, tilnefndur af Hönnunarmiðstöð og Þórunn Sigurðadóttir stjórnarformaður Ago, tilnefnd af Portusi sem gegnir formennsku.

Hægt verður að skoða allar tillögurnar á næstunni á sýningu í Hönnunarsafni Íslands.