4.10.2010

Bleika slaufan

 
 
Bleika slaufan, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, hófst formlega föstudaginn 1. október 2010, og hefur félagið sett sér það markmið að selja 50 þúsund slaufur fram til 15. október þegar slaufusölunni lýkur.

Í ár var í fyrsta sinn haldin samkeppni um hönnun bleiku slaufunnar og bar Ragnheiður I. Margeirsdóttir hönnuður sigur úr býtum.

Var slaufan afhjúpuð við athöfn í heilbrigðisráðuneytinu þegar Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra afhenti fyrstu slaufurnar þremur konum sem hafa greinst með krabbamein. Þær heita Stefanía Guðmundsdóttir, Ágústa Erna Hilmarsdóttir og Guðný Kristrún Guðjónsdóttir.„Þær Stefanía, Ágústa Erna og Guðný Kristrún fá  fyrstu slaufurnar því að í okkar augum eru þær hvunndagshetjur, venjulegar konur sem þurfa að horfast í augu við erfiðan sjúkdóm. Þær eru á ólíkum aldri og berjast við ólík krabbamein en eiga það sameiginlegt að sýna mikið hugrekki og dugnað í að sinna málum er varða þá sem greinast með krabbamein,“ sagði Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra við athöfnina í dag og þakkaði Krabbameinsfélaginu fyrir ötula baráttu í gegnum tíðina. Enn mætti þó gera betur og hvatti hann alla landsmenn til að kaupa bleiku slaufuna og kvaðst sjálfur myndi bera hana með stolti í október, til stuðnings góðu málefni.

Undanfarinn áratug hefur Krabbameinsfélag Íslands beint sjónum landsmanna að krabbameinum kvenna í októbermánuði, einkum þó brjóstakrabbameini sem er algengast þeirra. Þetta hefur verið gert undir merki bleiku slaufunnar og bleiki liturinn verið notaður til að leggja áherslu á málefnið. „Nú leggjum við aukna áherlsu á krabbamein kvenna almennt, enda berst Krabbameinsfélagið gegn öllum krabbameinum.  Við beitum okkur á mjög mörgum sviðum, s.s. í forvörnum og fræðslu, leit að krabbameinum á for- og frumstigi, ráðgjöf og stuðningi, rannsóknum, styðjum framfarir í meðferð og umönnun og tökum þátt í hagsmunabaráttu sjúklinga og aðstandenda þeirra, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. „Um 15 þúsund konur koma í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð á hverju ári og um fimm þúsund konur mæta i krabbameinsleit á vegum félagsins um allt land. Þetta veitir okkur tækifæri til að kynna konum ýmsar leiðir til að hafa áhrif á heilsuna, og það ætlum við að nýta okkur enn frekar.“

Ragnheiður I. Margeirsdóttir bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni um bleiku slaufuna 2010 sem Krabbameinsféalgið og Hönnunarmiðstöð Íslands efndu til.  „Það var einróma mat dómnefndar að hönnun nöfnu minnar bæri af en hún sækir innblástur í þjóðararfinn. Munstrið í slaufunni kemur frá skúfnum í skotthúfunni, sem er hluti af íslenska þjóðbúningnum, og því skemmtileg tilvísun í þjóðararf okkar,“ segir Ragnheiður Haraldsdóttir.

Hægt verður að kaupa bleiku slaufuna í tveimur útgáfum hjá samstarfsaðilum Krabbameinsfélagsins um allt land og einnig verður hægt að kaupa viðhafnarútgáfa af slaufunni úr silfri hjá Leonard í Kringlunni, Smáralind og Leifsstöð.

Bleika slaufan kostar aðeins 1.500 krónur og verður til sölu dagana 1.-15. október.

Nánari upplýsingar veita:
Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Sími 540-1900, 895 0218 ragnheidur@krabb.is
Laila Sæunn Pétursdóttir, markaðs- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Sími 540-1926, 693-0175 laila@krabb.is

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélagi Íslands