26.8.2010

Hönnunarsamkeppni um húsgögn í Hörpu



Ákveðið hefur verið að efna til samkeppni um hönnun húsgagna í almenningsrými Tónlistar og ráðstefnuhússins Hörpu. 

Fyrirtækið Portus, sem á og rekur Hörpu efnir til samkeppninnar í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands.  

Um er að ræða bekki í anddyri Hörpu, lausa bari, ráðstefnuborð og ræðupúlt. Áhersla er lögð á að hönnunin falli vel að sérstakri hönnun Hörpu, að samræmi sé í efnisvali og að hægt verði að framleiða húsgögnin hér á landi. Samkeppnin er opin hönnuðum og arkitektum.  

Í september verður haldinn kynningarfundur þar sem samkeppnis- og verkefnislýsing verður lögð fram ásamt tæknilegum upplýsinum frá arkitektum hússins. Verðlaunafé er ein milljón króna og skilafrestur tillagna verður til 15. janúar 2011. Dómnefnd skilar áliti um miðjan febrúar 2011 og munu allar innsendar tillögur verða til sýnis að því loknu.  

Í dómnefnd keppninnar sitja eftirtaldir: Osbjørn Jacobsen, arkitekt frá Henning Larsen Architects, Soffía Valtýsdóttir, arkitekt frá Batteríinu bæði tilnefnd af Portus, frá Félagi vöruhönnuða er Þorsteinn Geirharðsson, arkitekt og iðnhönnuður og Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaarkitekt fyrir Félag innanhússarkitekta, báðir tilnefndir af Hönnunarmiðstöð. Formaður nefndarinnar er Þórunn Sigurðardóttir, formaður Ago, rekstrarfélags Hörpu, sem skipuð er af Portusi. Ráðgjafi dómnefndar er Lúðvík Bjarnason. Trúnaðarmaður nefndarinnar er Haukur Már Hauksson, hönnuður.  

Nánari upplýsingar veitir Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarformaður Ago sími: 897 2089  

www.harpa.is