28.6.2010

Bleika slaufan | Vinningstillaga og sýning


Ragnheiður I. Margeirsdóttir hannar Bleiku slaufuna 2010


•    Ragnheiður hlutskörpust í hönnunarsamkeppni KÍ og Hönnunarmiðstöðvar Íslands
•    Yfir 70 tillögur bárust í keppnina
•    Slaufan verður seld til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands í október
•    Valdar tillögur verða til sýnis í húsnæði KÍ í Skógarhlíð



Nýverið efndu Krabbameinsfélag Íslands og Hönnunarmiðstöð Íslands til samkeppni um hönnun á bleiku slaufunni 2010, tákni Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Fjölmargir tóku þátt í keppninni og dómnefnd fór yfir á áttunda tug tillagna. Það var einróma niðurstaða dómnefndar að hönnun Ragnheiðar I. Margeirsdóttur bæri af og verður slaufan hennar því fjöldaframleidd og seld til styrktar Krabbameinsfélaginu í október. 
„Á undanförnum árum hefur bleika slaufan þróast frá því að vera einfaldur, bleikur borði yfir í fallegan og eigulegan skartgrip og var því ákveðið að efna til samkeppni um hönnun slaufunnar í ár,“ segir Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. „Við erum afar ánægð með hönnun nöfnu minnar, og teljum slaufu hennar vera fallega, frumlega og með skemmtilegri þjóðlegri tilvísun.“
 
Ánægjulegt að leggja Bleiku slaufunni lið
„Það er mikill heiður að taka á móti þessum verðlaunum og sérstaklega ánægjulegt að fá að leggja Bleiku slaufunni lið,“ segir Ragnheiður sem lauk prófi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2008. „Mig dreymdi lengi um að verða gullsmiður en komst að því á unglingsaldri að það var ekki hlaupið að því að komast á samning og fór því aðra leið.  Það er mikil fjölbreytni í vöruhönnun en draumurinn um gullsmíðina hefur þó alltaf blundað í mér, og mér fundist það eiga vel við mig að hanna og smíða fíngerða skartgripi!“  
Ragnheiður hefur unnið að sinni eigin hönnun síðustu tvö ár undir merkinu RIM, ásamt því að vinna undir merkinu Varius með Írisi Sigurðardóttur. Verðlaunin vegna hönnunar á bleiku slaufunni nema 500 þúsund krónum en það eru Arion banki, Sölufélag garðyrkjumanna og Leonard sem styðja við keppnina.

Valdar tillögur til sýnis 
„Hönnun Ragnheiðar sækir innblástur í þjóðararfinn og er mjög fagmannlega unnin, en auk þess að vera fallegur skartgripur er slaufan einnig haganlega hönnuð svo hún hentar vel til framleiðslu,“ segir Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands. „Við erum ánægð að fá þetta tækifæri til að sameina fallega hönnun og gott málefni og eru viss um að þessi nýja bleika slaufa fái miklar og góðar viðtökur hjá íslenskum konum og körlum.“  Í dómnefndinni sátu m.a. fyrri hönnuðir slaufunnar, þær Hendrikka Waage og Sif Jakobs, auk fulltrúa frá Krabbameinsfélaginu og Hönnunarmiðstöðinni.

Hægt verður að skoða valdar tillögur úr samkeppninni í húsnæði Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins  í Skógarhlíð 8.

Nánari upplýsingar:
Gústaf Gústafsson, markaðs- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélags Íslands /662 4156 / gustaf@krabb.is
 , Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands /699 3600 / halla@honnunarmidstod.is eða á netinu á www.honnunarmidstod.is og www.krabb.is