3.5.2010

Minn Ásmundur | VerðlaunatillagaVerðlaunagripurinn, Minn Ásmundur eftir Eddu Gylfadóttur, Guðrúnu Hjörleifsdóttur og
Helgu Björgu Jónasardóttur. Ljósmyndir: Viktor Guðlaugsson.

Verðlaunaafhending í hönnunarsamkeppni í anda myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar, sem verslunin Kraum, Listasafn Reykjavíkur og Hönnunarmiðstöð Íslands standa að, fór fram í Ásmundarsafni laugardaginn 1. maí.

Niðurstaða dómnefndar var sem hér segir: Í  fyrsta sæti er tillagan Minn Ásmundur. Um er að ræða þrívíddar-púsluspil sem raða má saman á ótal vegu án þess að vera bundinn af fyrirfram gefinni lausn. Tvívíðir hlutar spilsins eru unnir út frá kunnuglegum formum í myndheimi Ásmundar, sem þátttakandinn getur raðað saman í þrívídd og með því skapað sinn eigin skúlptúr. Hluturinn hvetur til leiks og sköpunar þar sem viðfangsefnið er myndbygging og jafnvægissamspil forma í þrívídd,  eða þau listrænu grunnatriði sem Ásmundur glímdi alla tíð við í verkum sínum.

Bak við verðlaunatillöguna Minn Ásmundur stendur hönnunarstofan Björg í Bú, sem eru hönnuðirnir Edda Gylfadóttir, Guðrún Hjörleifsdóttir og Helga Björg Jónasardóttir. Hljóta þær verðlaunafé að upphæð kr. 500.000,- auk þess sem varan verður þróuð áfram til framleiðslu og seld í verslunum Kraums í Aðalstræti og á Kjarvalsstöðum og í safnverslunum Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og Ásmundarsafni. Verðlaunaféð er sameiginlegt framlag frá Kraumi, Listasafni Reykjavíkur, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

 
Í öðru sæti er tillagan Tif, hringlaga klukka úr ógangsæju hvítu plexigleri. Í hringinn eru fræst göt sem minna á glugga kúluhúss Ásmundar. Klukkan er hugsuð sem fyrsta varan í röð hluta sem byggja á sama grunnforminu; hinar eru ljós og skál. Tillagan er ein margra í  keppninni sem sækir innblástur í hús Ásmundar. Dómnefnd mælir með að varan verði þróuð áfram til framleiðslu. Hönnuður er Örn Smári Gíslason.


 
Í þriðja sæti er tillagan Bergþóra, sem er hugmynd um viskustykki, hversdagslegum nytjahlut, með áþrykktu, stílfærðu mynstri sem sækir innblástur í járnskúlptúra Ásmundar frá 6. og 7. áratugnum. Hún er ein þeirra tillagna í keppninni sem kusu að túlka þrívíð form listamannsins í tvívídd. Dómnefnd mælir með að varan verði þróuð áfram til framleiðslu. Viðurkenninguna hljóta Jóhanna Erla og Elísabet Jónsdóttir.

Vinningstillögurnar ásamt þrettán öðrum sem þóttu skara fram úr verða til sýnis í Ásmundarsafni fram til 16. maí.

Samkeppnin

Þetta er í annað sinn sem þessir sömu aðilar standa fyrir hönnunarsamkeppni þar sem skírskotað er til einstaks listamanns. Í fyrra var það Erró, og væntingar standa til að framhald verði á samstarfinu í framtíðinni. Samkeppnin, hönnun í anda Ásmundar, var opin öllum. Í samkeppnislýsingu var óskað eftir tillögum að nytjahlut sem endurspegla skyldi hugarheim og verk myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar. Dómnefnd skipuðu: Halla Bogadóttir f.h. Kraums formaður, Soffía Karlsdóttir f.h. Listasafns Reykjavíkur, Halla Helgadóttir f.h. Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Pétur H. Ármannsson arkitekt, Óðinn Bolli Björgvinsson vöruhönnuður og Ingirafn Steinarsson f.h. SÍM. Innsendar tillögur í keppnina voru 68 og voru þær allar teknar til dóms. Af þeim voru 15 tillögur valdar til að keppa um verðlaunasæti og til sýningar í Ásmundarsafni næstu tvær vikurnar. Að mati dómnefndar fela tillögurnar 15 í sér skemmtilegar og raunhæfar hugmyndir að vöru með vísun í form- og hugarheim Ásmundar Sveinssonar og er það einlæg von dómnefndar að einhverjar þeirra megi nýta og þróa áfram. Dómnefnd valdi að lokum þrjár tillögur úr hópi hinna fimmtán sem álitlegastar þóttu til verðlauna. Þær endurspegla ólík tímabil í listsköpun Ásmundar og fela jafnframt í sér afar vel útfærðar lausnir á hugmyndum sem eru í takt við ákveðna meginstrauma sem greina má í fleiri innsendum tillögum.

Sýning á þeim fimmtán tillögum sem þóttu skara fram úr stendur yfir í Ásmundarsafni til 16. maí. Opið daglega frá kl. 10 – 16. Aðgangur ókeypis.

Þetta segir á vef Listasafns Reykjavíkur.

Björg í bú á facebook