28.4.2010

Ásmundarsamkeppni | Verðalaunafhending og sýning



Kunngerð verða úrslit í hönnunarsamkeppni í anda Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, laugardaginn 1. maí kl. 17 í Ásmundarsafni. Það er dóttir listamannsins, Ásdís Ásmundsdóttir, sem mun afhenda fyrstu verðlaun en fimmtán bestu hugmyndirnar í samkeppninni verða einnig til sýnis í safninu.

Á sama tíma verður opnuð sýningin Ég kýs blómlegar konur ... Konur í verkum Ásmundar Sveinssonar, þar sem sjónum er beint að konum og kvenímyndinni í verkum Ásmundar. Þá hefur hluti af vinnustofu Ásmundar verið endurgerður, sem gerir gestum kleift að skyggnast inn í líf og starf myndhöggvarans.

HÖNNUN Í ANDA ÁSMUNDAR

Alls bárust 68 tillögur í hönnunarsamkeppninni um Ásmund Sveinsson en að henni standa verslunin Kraum, Listasafn Reykjavíkur og Hönnunarmiðstöð Íslands. Óskað var eftir tillögum að nytjahlut sem endurspegla skyldi hugarheim og verk myndhöggvarans og var keppnin öllum opin.

Verðlaunahafi hlýtur verðlaun að verðmæti 500.000 kr. sem Kraum, Listasafn Reykjavíkur, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins leggja til, auk þess sem hluturinn verður seldur í verslunum Kraums í Aðalstræti og á Kjarvalsstöðum og í safnverslunum Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og Ásmundarsafni. Einnig má gera ráð fyrir því að fleiri munir sem bárust í samkeppnina verði valdir til sölu á næstu mánuðum.

Að mati dómnefndar fela þær fimmtán hugmyndir sem sýndar verða í Ásmundarsafni allar í sér skemmtilegar og raunhæfar hugmyndir að vöru með vísun í form- og hugarheim Ásmundar Sveinssonar. Þær endurspegla ólík tímabil í listsköpun Ásmundar og fela jafnframt í sér afar vel útfærðar lausnir á hugmyndum sem eru í takt við ákveðna meginstrauma.

Dómnefnd skipuðu: Halla Bogadóttir f.h. Kraum, formaður, Soffía Karlsdóttir f.h. Listasafns Reykjavíkur, Halla Helgadóttir f.h. Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Pétur H. Ármannsson arkitekt, Óðinn Bolli Björgvinsson, vöruhönnuður og Ingirafn Steinarsson f.h. SÍM.

„ÉG KÝS BLÓMLEGAR KONUR...“

Stór hluti af verkum Ásmundar fjalla um konur; allt frá ástríkum mæðrum til stritandi vinnukvenna eða frá viðkvæmum stúlkum til hamslausra tröllkvenna. Titill sýningarinnar er tilvitnun í Ásmund sjálfan í viðtali sem tekið var við hann í Þjóðviljanum sumarið 1961 undir yfirskriftinni „Vinnan er lífið — og fegurðin“.

Verkin á sýningunni lýsa sameiginlegum tilfinningum sem birtast sem táknsögur fyrirbæra eða skáldskapar. Þau spanna allan feril Ásmundar og sýna allt frá fyrstu raunsæisverkum hans til íburðarmikilla framsetninga hans á kvenkynsímyndunum. Sýningarstjóri er Yean Fee Quay.

Sýningin stendur til 17. apríl árið 2011.

Í píramída Ásmundarsafns hefur verið komið upp endurgerð af vinnustofu Ásmundar þar sem ljósi er varpað á vinnuaðstöðu hans í Sigtúninu. Einnig hefur verið sett upp lesstofa þar sem hægt er að fræðast um líf og list Ásmundar í máli og myndum.

Þetta segir á vef Listasafns Reykjavíkur