21.1.2010

Hönnunarsamkeppni | Kynningarfundur
Verslunin Kraum, Listasafn Reykjavíkur og Hönnunarmiðstöð Íslands standa í annað sinn fyrir hönnunarsamkeppni þar sem sjónum er beint að ákveðnum listamanni. Á síðasta ári voru verk Errós lögð til grundvallar í samkeppninni en í ár er horft til Ásmundar Sveinssonar. Kynning á samkeppninni fer fram nk. mánudag 25. janúar kl. 12 í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.

Verkefnið:

Hönnunarsamkeppni sem felst í því að hanna vöru sem endurspeglar hugarheim og verk myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar.

Verðlaunafé:

Verðlaunahafi hlýtur verðlaun að verðmæti 500.000 kr. sem Kraum, Listasafn Reykjavíkur, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins leggja til, auk þess sem hluturinn verður seldur í verslunum Kraums í Aðalstræti og á Kjarvalsstöðum og í safnverslunum Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og Ásmundarsafni. Einnig má gera ráð fyrir því að fleiri munir í samkeppninni verði valdir til sölu á næstu mánuðum.

Fyrir hverja:

Keppnin er öllum opin.

Umsóknarferli:

Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu dulnefni í verslunina KRAUM, Aðalstræti 10, 101 Reykjavík, fyrir kl. 17.00, fimmtudaginn 8. apríl 2010. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn hönnuðar, heimilisfang og sími að koma fram. Tillögum skal skila útprentuðum á A4 blaði í lit (hámark 3 síður) og / eða sem prótótýpu. Tillögur skulu einnig fylgja með á diski með pdf skjölum.

Úrslit keppninnar verða kynnt við opnun sumarsýningar Ásmundarsafns 1. maí 2010.

Nánari upplýsingar:

1. Gripurinn á að vera hannaður undir áhrifum frá Ásmundi, en má ekki vera eftirlíking af verkum hans, eða verkin hans notuð eins og þau koma fyrir, t.d. með því að prenta þau beint á einhvern flöt eða gera eftirmyndir af höggmyndum hans. Einnig kemur til greina að nota byggingu Ásmundarsafns sem uppsprettu hugmynda.
2. Engar takmarkanir eru á verði vörunnar, en hönnuðir þurfa að gera ráð fyrir sinni framlegð í heildsöluverðinu eins og reglan er í smásölu. Í tillögunni þarf að gera grein fyrir heildsölu- og smásöluverð vörunnar. Hönnuðir geta haft samband við Hönnunarmiðstöð ef óskað er eftir aðstoð vegna þessa.
3. Þátttakendur sjá sjálfir um framleiðslu á þeim vörum sem verða fyrir valinu eða finna fyrirtæki til að gera það fyrir sig. Framleiðsluferlið skal tilgreint með tillögunni. Kraum skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðið magn vörunnar samkvæmt sérstöku samkomulagi. Kraum og Listasafn Reykjavíkur hafa einkarétt á sölu á viðkomandi vöru í 1 ár.

Val á tillögum:

Dómnefnd velur verðlaunagripinn úr innsendum tillögum og einnig aðra þá muni sem til greina kemur að framleiða.

ÁSMUNDUR SVEINSSON

Ásmundur Sveinsson var fæddur árið 1893 og lést árið 1982. Ásmundur hélt alla tíð tryggð við þá hugmynd að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Hann var kallaður alþýðuskáldið í myndlist og án efa á þessi hugsjón rætur að rekja til lífsafstöðu hans, ekki síður en höggmyndahefðarinnar. Flest verk hans voru hugsuð sem hluti af opinberu rými, órofa hluti af umhverfi sínu eða útfærð sem hönnun og nytjahlutir. Ásmundur Sveinsson myndhöggvari ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili sínu eftir sinn dag. Ásmundarsafn í Sigtúni var opnað formlega vorið 1983. Í safninu eru haldnar sýningar á verkum listamannsins, sem og verkum annarra. Í garðinum við safnið er einnig að finna mörg verka Ásmundar sem hafa verið stækkuð eða unnin sérstaklega til að standa utandyra.

Á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur hafa þátttakendur aðgang að upplýsingum um Ásmund en einnig eru bækur um listamanninn í bókasafni Hafnarhússins og í Ásmundarsafni. Þess ber að geta að vetraropnunartími er nú í Ásmundarsafni og er það opið laugardaga og sunnudaga 13-16, en lokað alla virka daga.

Dómnefnd skipa:

Halla Bogadóttir, Kraum, formaður | Soffía Karlsdóttir, Listasafn Reykjavíkur | Halla Helgadóttir, Hönnunarmiðstöð Íslands | Pétur H. Ármannsson, arkitekt | Óðinn Bolli Björgvinsson, vöruhönnuður | Ingirafn Steinarsson – SÍM

Nánari upplýsingar um keppnina ásamt myndum af verkum Ásmundar Sveinssonar er að finna á listasafnreykjavikur.is, kraum.is og honnunarmidstod.is.


Upplýsingaskjal um hönnunarsamkeppnina er að finna hér.