Fyrirlestrar

Málþing um samhengi arkitektúrs og borgarrýma



Föstudaginn 20. maí, frá kl.12:10-13:00, verður haldið málþing á vegum, Arkitektafélags Íslands og Listaháskóla Íslands, um samhengi arkitektúrs og borgarrýma. Málþingið fer fram í Þverholti 11, Sal A. Frítt inn og allir velkomnir.

Á málþinginu verður sjónum beint að miðbænum og gæðum nærumhverfis með vísun í umfjöllun undanfarins misseris. Rýnt verður í ferli og verkfæri við mótun byggðar. Fjallað verður á gagnrýninn hátt um skörun arkitektúrs, borgarrýma og skipulags og hvernig ákvarðanir um framkvæmdir geti tekið mið af slíkri skörun.

Bjarki Gunnar Halldórsson, arkitekt, og Steinþór Kári Kárason, arkitekt og prófessor í arkitektúr við LHÍ, flytja stutt erindi. Að loknum erindum verða pallborðsumræður.


Bjarki Gunnar til vinstri og Steinþór Kári til hægri.

Bjarki Gunnar Halldórsson útskrifaðist úr arkitektanámi í Danmörku árið 2008. Hann hefur unnið á teiknistofum hér á landi sem og í London og komið að fjölbreytilegri flóru verkefna, litlum sem og stórum. Bjarki Gunnar hefur einnig sinnt ritstjórnarstörfum og verkefnum á sviði kennslu og arkitektúrs.

Steinþór Kári Kárason útskrifaðist úr arkitektanámi í Lausanne í Sviss árið 1998. Í framhaldinu vann hann hjá Studio Granda í Reykjavík og hjá Tony Fretton Architects í London. Frá árinu 2004 hefur hann starfrækt arkitektastofuna Kurtogpi ásamt Ásmundi H. Sturlusyni. Steinþór hefur komið að kennslu í arkitektúr í LHI frá árinu 2002 og verið prófessor frá 2010. Hann hefur komið að kennslu í ýmsum skólum og verið gestaprófessor í EPF Lausanne í Sviss.