Fyrirlestrar

SmallTalks | Sigga Heimis í HörpuSigga Heimis verður með erindi á SmallTalks, fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands, mánudaginn 9. maí, kl. 20:00, í sal Kaldalón Hörpu. Yfirskrift fyrirlestursins er: „Hönnuðir + stór markaðsfyrirtæki (t.d. IKEA) = hórdómur eða velgengni?“

Stórfyrirtæki hafa gífurlega áhrif á vöruþróun og stýra oft á tíðum hvað framleitt er og hvernig. Markaðslögmál ráða ríkjum og oft stýrir eftirspurn hvað búið er til.
Geta hönnuðir haft áhrif á þessi gífurlegu ítök markaðarins? Geta hönnuðir staðið vaktina svo að umhverfisvæn, vistvæn, gæða og fagurfræðileg sjónarmið nái fram að ganga? Geta hönnuðir komið fyrr að í hugmyndaferlinu og haft meiri, víðtækari og stærri áhrif en þekkist í dag. Og hvernig vinna þessi stórfyrirtæki, hversu stór eru þau og hvar koma hönnuðir við sögu?


Sigga Heimis

Sigga Heimis hefur verið í fremstu röð íslenskra hönnuða um árabil. Hún er fædd árið 1970 og útskrifaður iðnhönnuður frá Istituto Europeo di Design og með meistaragráðu frá Domus Academy í Mílanó á Ítalíu.

Hún hefur átt glæsilegan feril, meðal annars sem hönnunarstjóri Fritz Hansen, sem framleiðir t.d. húsgögn eftir Arne Jacobsen, Poul Kjaerholm og Hans J. Wegner, og hjá IKEA þar sem hún gegnir nú stöðu þróunarstjóra og sér um yfirhönnun í eldhús- og smávörudeild. Sigga hefur að auki starfað með fjölda erlendra háskóla víða um heim og unnið verkefni fyrir Vitra, hönnunarsafnið í Þýskalandi.

Sigga hefur einbeitt sér að fjöldaframleiddri hönnun, en í dag liggja eftir hana á fjórða hundrað vörutegunda. Hún hefur kennt og haldið fyrirlestra við ólíka háskóla víða um heim og haft yfirumsjón með samstarfi IKEA við hönnunarskóla í fjölmörgum löndum. Þá hefur Sigga haldið hönnunarnámskeið fyrir fjölda nemenda hérlendis sem erlendis, auk þess sem hún hefur unnið með ýmsum íslenskum framleiðendum.

SmallTalks er fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands, í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Hörpu. Markmiðið er að halda uppi líflegri umræðu um það sem helst er að gerast á sviði hönnunar og arkitektúr, en þar kynna hönnuðir og arkitektar verkefni sín auk þess sem málefni líðandi stundar er varða hönnuði og arkitekta eru tekin fyrir. Frítt inn og allir velkomnir.

Viðburður á facebook