Fyrirlestrar

SmallTalks | Onny Eikhaug – Hönnun fyrir alla



Onny Eikhaug frá Norsk Design og Arkitektursenter (hönnunar- og arkitektamiðstöð Noregs) fjallar um „Universal Design“ eða hönnun fyrir alla á SmallTalks, fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands, þriðjudaginn 12. janúar kl. 20:00 í  Kaldalóni, Hörpu. Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Velferðasvið Reykjavíkurborgar.

Á fyrirlestrinum fjallar Onny Eikhaug um „Hönnun fyrir alla“, einnig þekkt sem „Universal Design“ og „Inclusive Design“. Þá er tekið tillit til stærri hóps neytanda en oft er gert, þar sem áhersla er lögð á þróun umhverfis, vöru og þjónustu sem er aðgengileg fyrir eins breiðan hóp af fólki og mögulegt er, óháð aldri og getu.

Onny hefur einstaka reynslu á þessu sviði en hún hefur haldið utan um og leitt verkefni á þessu sviði fyrir fjölda fyrirtækja og stofnana á vegum hönnuna - og arkitektamiðstöðvar Noregs sem snúa að fólki, fyrirtækjum og samfélaginu almennt. Áherslan er á að allir hafi aðgang að lausnum og útfærslu hönnuða og arkitekta og gert er ráð fyrir mikilvægum þáttum eins og góðu aðgengi, skilvirkum og skýrum merkingum og snjöllum, vel útfærðum lausnum sem gagnast öllum.



Onny Eikhaug.

Hún leggur mikla áherslu á sjálfbæra hönnun sem tekur tillit til mannlífsins í þeim verkefnum sem hún leiðir og hefur unnið ötult starf að því að koma á skilningi um möguleikana sem fylgja þeirri nálgun.

Einnig hefur hún skrifað, gefið út bækur og haldið fjölda fyrirlestra í Noregi sem og alþjóðlega. Hún gaf út bókina „Innovating with people - The Business of Inclusive Design concept - sem gefin er út víða um heim og er hluti af námskrá í þeim deildum sem kenna Inclusive Design. Nánar hér. Þá starfar hún náið með stjórnvöldum, menntastofnunum, rannsóknarsetrum og hönnuðum almennt, en hún hefur víðtæka reynslu í alþjóðlegri markaðssetningu, sölu á hönnun, nýsköpun, vöruþróun og hönnunarstjórnun. En nýlega hlaut hún verðlaunin The Inclusive Design Champion Award, fyrir störf sín á alþjóðlegu ráðstefnunni Include sem haldin var á The Royal College of Art í London 2015.

Umræður

Að fyrirlestri loknum verða umræður. Umræðustjóri er Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.

Þátttakendur í panel:

Atli Hilmarsson, grafískur hönnuður.
Anna María Bogadóttir, arkitekt.
Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar.
Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar.
Helgi Hjörvar, Alþingismaður.
Stefán Eiríksson, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Rósa Dögg Þorsteinssdóttir, lýsingarhönnuður/ innanhússarkitekt.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.


SmallTalks er fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands, í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Hörpu. Markmiðið er að halda uppi líflegri umræðu um það sem helst er að gerast á sviði hönnunar og arkitektúr, en þar kynna hönnuðir og arkitektar verkefni sín auk þess sem málefni líðandi stundar er varða hönnuði og arkitekta eru tekin fyrir. Frítt inn og allir velkomnir.