Fyrirlestrar

Hátíðarfyrirlestur | Hönnunarkennsla í 20 árMiðvikudaginn 30. september kl. 17:30 verður haldinn hátíðarfyrirlestur í tilefni af sextugsafmæli Godds (Guðmundar Odds Magnússonar), prófessors við hönnunar- og arkitektúrdeild. Í fyrirlestrinum fjallar Goddur um þróun hönnunarkennslu undanfarin 20 ár.

Fyrirlesturinn er opnunarfyrirlestur SNEIÐMYNDAR, fyrirlestraraðar hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Í Sneiðmynd kynna kennarar deildarinnar rannsóknir sínar og hönnunarverk og fjalla um tengsl þeirra við eigin kennslu. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrarsal A í húsnæði hönnunar- og arkitektúrdeildar, Þverholti 11.

Goddur nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1976-1979 og fór síðan í nám til Kanada. Hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Emily Carr College of Art and Design í Vancouver, Bresku Kólumbíu árið 1989. Hann hefur kennt grafíska hönnun óslitið síðan 1992, fyrst við Myndlistaskólann á Akureyri, síðan Myndlista- og handíðaskólann frá 1995 og við Listaháskóla Íslands frá stofnun hans en Goddur átti ríkan þátt í að móta nám í grafískri hönnun við skólann.

Í fyrirlestrinum fer Goddur yfir kennsluferil sinn. Hann ræðir heimspeki hönnunar, aðferðafræði og tæknilegar byltingar.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.