Julia Studio er ungt og upprennandi teymi grafískra hönnuða frá London sem segja frá völdum verkefnum, ræða dýnamík samstarfsins og bransann í Bretlandi á fyrirlestri Hönnunarmiðstöðvar þann 28. október.
Julia Studio var stofnað árið 2008 af grafíska þríeykinu Valerio Di Lucente, Erwan Lhuissier og Hugo Timm. Þeir fást við mjög fjölbreytileg verkefni, eru listrænir stjórnendur tímaritsins Elephant, sem er gefið út af útgefanda FRAME, hafa einnig séð um listræna stjórnun The Institute of Contemporary Arts in London frá 2012 og unnið fyrir mjög áhugaverða viskiptavini eins og Phaidon, Laurence King og tímaritið Wallpaper.
Þá hafa þeir fengist við kennslu í breskum hönnunar- og listaháskólum og víðar, þar ber helst að nefna The Royal College of Art í London, IUAV í Feneyjum og nú Listaháskóla Íslands í Reykjavík.
Julia sérhæfir sig í letur- og bókagerð, tímaritum, innsetningum og sýningum, veggspjöldum, heimasíðugerð og grafískum einkennum. Einnig eru þeir vel tengdir inn í auglýsingabransann og eru með breiðan hóp viðskiptavina, en í starfi sínu leitast þeir eftir að tengja á milli ólíkra hönnunargreina.
Fyrirlesturinn verður haldinn í Kaldalóni, sal Hörpu, þriðjudaginn 28. október og hefst kl. 20.00. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.
Fyrirlesturinn er í samstarfi við Listaháskóla Íslands. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
www.julia.uk.com
Hér má finna viðburðinn á Facebook.