Fyrirlestrar

Fyrirlestur | CUBO arkitektar í Norræna húsinu


CUBO arkitektar frá Danmörku flytja fyrirlestur um verk sín í Norræna húsinu sunnudaginn 7. september kl. 15:00. Á fyrirlestrinum sýna þeir svipmyndir af verkum stofunnar, með áherslu á ný verkefni, akkerisfestingu þeirra við hvern stað, landslagið og náttúruna, efniskennd náttúrulegra byggingarefna og gott handverk. En yfirskrift fyrirlestrarins er kjölfesta.

Teiknistofan CUBO var stofnuð í Árósum í Danmörku árið 1992 af arkitektunum Peter Dalsgaard, Bo Lautrup, Ib Valdemar Nielsen og Lars Juel Thiis. Allir hafa þeir sterk tengsl við landslag og menningu Danmerkur, þá sér í lagi stöðum sem tengjast hafinu á einn eða annan hátt.

Þeir mörkuðu sér fljótt sérstöðu með ferskri nálgun sinni á að byggja með beinskeyttri næmni fyrir staðháttum, og hafa þeir unnið verkefni af öllum stærðum og gerðum. Allt frá óblíðri sjávarsíðu Jótlands við strandlengjuna að Vesterhavet til annars konar þrungins landslags á Frederiksholmen í Kaupmannahöfn - þar sem danski sjóherinn var með aðstöðu sína allt til loka síðustu aldar.


CUBO 1994 | Listaháskólarnir á Holmen

Stofan hlaut fyrst alþjóðlega athygli fyrir byggingar sínar á Holmen, þar sem formfastar gömlu byggingar hersins voru nýttar með nýbyggingum í samtíma formtungumáli fyrir starfsemi þriggja listaháskóla Danmerkur. Síðan þá hefur stofan vaxið jafnt og þétt, unnið til ótal verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Meðal annars verið tilnefnd til Mies van der Rohe verðlaunanna. Þá hafa verk þeirra verið sýnd á ótal sýningum, auk þess sem eigendur stofunnar eru mjög virkir í Arkitektafélagi Danmerkur, eru virtir dómarar í arkitektasamkeppnum og virkir prófdæmendur við dönsku arkitektaskólana.


CUBO 2014 | Menningarhús í Hammerhavn

Fyrirlesturinn er ókeypis, fluttur á ensku og allir velkomnir á meðan húsrými leyfir.

Guja Dögg Hauksdóttir fer með umsjón og sem fyrr segir er gestgjafi fyrirlestursins Norræna húsið í Reykjavík.

www.cubo.dk

www.norraenahusid.is