Fyrirlestrar

Hádegisfyrirlestur | Mótun og mikilvægi almenningsrýma


Anna Mansfield og Maria Lisogorskaya, arkitektar frá London, halda stuttan og fróðlegan fyrirlestur í Norræna húsinu föstudaginn 22. ágúst kl. 12:10. Báðar hafa þær mikla reynslu af því að vinna með almenningsrými þar sem lögð er áhersla að virkja notandann í hönnunarferlinu. Fyrirlestrinum verður skipt upp í tvennt og reikna má með að hann taki 45 mínútur að lengd.

Nánar um fyrirlesturinn:

Í fyrirlestrinum fjallar Anna Mansfield um það hvernig aðlagast skal örum breytingum í borgum sem eru stöðugt í þróun, en án þess að glata séreinkennum hennar. Út frá því er áhugavert að líta okkur nær, t.d. hver eru séreinkenni Reykjavíkur? Eru þau að glatast með hækkandi tölu túrista og hótelbygginga? Eða er allt í góðu ferli?

Anna býr yfir 10 ára reynslu af því að starfa á sviði borgarskipulags, bæði sem arkitekt og ráðgjafi og hefur sinnt lykilhlutverki hjá fyrirtækinu Publica frá upphafi. Þá hefur hún verið eftirsótt sem fyrirlesari á hinum ýmsu ráðstefnum innan hönnunargeirans og í fjölmiðlaheiminum. En nýlega var hún fengin sem sérlegur ráðgjafi um borgarskipulag hjá BBC.

Heimasíða Publica


Anna Mansfield, Publica                              Maria Lisogorskaya, Assemble

Maria Lisogorskaya er ein af stofnmeðlimum hönnunar- og arkitektúrhópsins Assemble, sem þykir vera með ferska og skemmtilega sýn á umhverfið. Hópurinn einbeitir sér aðallega að áður vanýttum svæðum en einnig hafa þau unnið að því að koma upp vinnustofum fyrir almenning til að komast í aðstöðu til að framkvæma hugmyndir sínar. Svipað og Fab Lab sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands rekur í Breiðholtinu. Í fyrirlestrinum mun Maria segja frá verkefnum Assemble og þróun hópsins síðustu ár.

Heimasíða Assemble

Hér má finna viðburðinn á Facebook