Fyrirlestrar

Ráðstefnan Arts & Audiences í Hörpu í októberNorræna ráðstefnan Arts & Audiences verður haldin í Hörpu 20. og 21. október 2014, í fyrsta sinn á Íslandi en áður hafa þær verið haldnar í Bergen, Stokkhólmi og Helsinki. Að þessu sinni verður sjónum sérstaklega beint að stafrænum miðlunar- og sköpunarleiðum. Forsölumiða er hægt að kaupa til og með 15. júlí.


Tungumál ráðstefnunnar er enska og er yfirskriftin ávallt sú sama; „virkni og þátttaka áhorfenda og listræn samvinna“ (audience engagement and artistic collaboration) en í ár verður sjónum sérstaklega beint að stafrænum miðlunar- og sköpunarleiðum. Með tilkomu stafrænna miðla í heiminum gegna áhorfendur nú æ oftar hlutverki meðhöfunda í listsköpuninni.

Það verður skoðað hvernig listamenn og menningarstofnanir á Norðurlöndunum geta brugðist við þeirri þróun. Leitast verður við að svara spurningum á borð við þessar:
  • Hvernig getum við nýtt gagnvirka tækni í listsköpuninni sjálfri?
  • Á hvaða hátt hefur þetta áhrif á listræna framleiðslu?
  • Virkjum við sköpunarkraftinn og þátttöku áhorfenda til fulls?

Nú þegar hafa áhugaverðir fyrirlesarar verið bókaðir á Arts & Audiences og það á enn eftir að bætast við. Af erlendu fyrirlesurunum er vert að nefna Peter Gorgels sem hefur yfirumsjón með öllum vefsíðum, veflausnum og stafrænum samskiptum Rijksmuseum í Hollandi. Vefir Rijksmuseum hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir gagnvirkar lausnir. Annette Mees frá Coney leikhúsinu í Bretlandi er einn af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar. Coney leikhúsið sérhæfir sig í að skapa listrænar upplifanir þar sem áhorfendur spila stórt hlutverk sem meðhöfundar um leið og sýningin er í gangi. 

Á meðal íslensku fyrirlesaranna er Torfi Frans Ólafsson, hönnunarstjóri EVE Online hjá CCP.

Norsk publikumsutvikling og Center for Kunst og Interkultur standa að ráðstefnunni.

Hér er hægt að skrá sig á Arts & Audiences 2014.
Heimasíða ráðstefnunnar er artsandaudiences.com.