Fyrirlestrar

HÆG BREYTILEG ÁTT | Málstofa


HÆG BREYTILEG ÁTT – hóparnir og verkefnin:





RÚÐUBORG – Þéttofið íbúðahverfi í Skeifunni

Hvernig er hægt að skapa aðlaðandi samfélag þar sem enginn býr og hvernig getur bæjarhluti sem gefur ekki af sér góðan þokka orðið spennandi, aðlaðandi og eftirsóttur staður sem gerir borgina ekki aðeins vistvænni, heldur líka glaðlegri og heilnæmari?

Markmið Rúðuborgar er að þróa atvinnu-og verslunarkjarnann Skeifuna í lifandi, iðandi og ólgandi bæjarhluta sem fólk dreymir um að búa í og heimsækja. Með hagkvæmum og vel hönnuðum íbúðum, menningarstarfsemi, grænum gæðasvæðum og fjölbreyttu rými til samskipta er jarðvegur nærandi og blómlegs mannlífs undirbúinn. Flest þeirra atvinnuhúsnæða sem eru til staðar eru sveigjanleg og bjóða upp á skapandi endurnýjun og möguleika á viðbyggingu – öllum til heilla, jafnt atvinnurekendum, fjárfestum og tilvonandi íbúum. Með endurskipulagningu bílastæðarýmis, betri skilgreiningu umferðaræða og lagningu vistlegri göngu-og hjólaleiða myndast að auki nægt rými til nýbygginga. Rúðuborg hugsar langt til framtíðar og vill leggja vísi að þróun sem gerir Skeifuna að vistvænum og lifandi miðpunkti innan þróunaráss Reykjavíkur, miðpunkti sem eflir hverfin í kring og styrkir borgina sem heild.

Hópinn skipa: Andri Gunnar Lynberg Andrésson, arkitekt,
 Björn Teitsson, blaða- og fréttamaður, leggur stund á MA nám í menningarfræði, Guðjón Kjartansson, viðskiptafræðingur, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, efna- og umhverfisverkfræðingur, Jón Davíð Ásgeirsson, arkitekt

Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir, þjóðfræðingur.



BÆR – gæðafermetrar á helgunarsvæðum einkabílsins

Bær vinnur að tillögum sem sýna hvernig er hægt að þétta byggð, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka fjölbreytni mannlífs og bæta borgarlífið samtímis. Tillögurnar sýna hvernig hægt er að byggja á svæðum sem nú eru helgunarsvæði bílsins, án þess að útrýma einkabílnum en um leið búa til grænni, betri og lífvænlegri borg. Malbikuðum bílastæðaflötum verður að hluta til skipt út fyrir byggingar með lifandi starfsemi á jarðhæðum, íbúðir á efri hæðum og líflega þak- og bakgarða. Byggingarnar verða einskonar yfirbyggingar yfir ólíka bílastæðareiti borgarinnar og verða því ólíkar eftir því hvernig bílastæði er um að ræða og eftir sögu og sérkennum hvers svæðis. Íbúðirnar munu verða bjartar og fjölbreyttar að lögun og stærð og áhersla verður lögð á gæði hvers fermeters. Hópinn skipa: Björn Jóhannsson, hagfræðingur, Kristján Eggertsson, arkitekt,
 Kristján Örn Kjartansson, arkitekt, Ragna Benedikta Garðarsdóttir, félagssálfræðingur, 
Sigurður Gunnarsson, byggingarverkfræðingur og Theresa Himmer, listamaður.



ÞORPIÐ Á JAÐRINUM – hvernig má bæta dvölina?

„Homo sum, humani nihil a me alienum puto“ eða „Ég er maður, mér er ekkert mannlegt óviðkomandi" skrifaði Rómverska leikritaskáldið Terence á annarri öld fyrir Krist.

Í nálgun á verkefnið leitast hópurinn við að vinna innanfrá og út í formið. Rýnir í hið stóra mengi samtímans, samhliða því að beina augum að hinu mannlega. Smáatriðin sem gera andartakið ögn betra án þess að því sé endilega gefinn gaumur. Þorpið sem skapar rammann sem fjöllin og dalirnir sköpuðu áður. Margbreytilega skynþröskulda. Séríslenska staðhætti. Deilihagkerfið þar sem margir lána mörgum - frá mörgum kerfum til margra kerfa. Þarfir einstaklings og heildar í síkvikum samtímanum. Samfélag og samskipti mótast af byggðinni og hugmyndir okkar um samfélag móta byggðina. Lóðarval staðsetur þorpið á jaðrinum. Jaðri lands og úthafs. Jaðri viðkvæms uppbyggingarsvæðis. Jaðri þess sem er og þess sem verður.

Hópinn skipa: Brynjar Sigurðarson, hönnuður, Hildur Ýr Ottósdóttir, arkitekt,
Hjördís Sóley Sigurðardóttir, arkitekt Snæfríð Þorsteins, hönnuður, Sóley Norðfjörð, sálfræðingur, Sverrir Bollason, umhverfisverkfræðingur.


LÓKAL GLÓBAL BÚSETA

– samnýtt inni- og útirými í íbúðabyggð fléttar saman græn svæði Laugardals og atvinnusvæði Múla. Lókal glóbal er nýtt kerfi búsetuforms þar sem áhersla verður lögð á lífið milli húsanna, innihaldi grænna svæða til dvalar, leikja og matvælaræktunar. Íbúðirnar byggja á grunnkerfi eininga sem býður upp á sveigjanleika í nýtingu, með möguleika á samnýtingu rýma, bæði innan og utan dyra auk samnýtingu bíla. Unnið er með svæðið frá Laugardal í gegnum Múlana að Háaleitisbraut, þar sem markmiðið er að láta græna kosti Laugardalsins smita út í umhverfið og fara með græðandi hönd um Múlana og tengja saman svæði með mannbætandi umhverfi og íbúðarkostum. Vakning hefur orðið á umhverfis- og efnahagsmálum og hefur ný hreyfing orðið til, „The sharing economy“ eða deilihagkerfi. Konsept Lókal glóbal byggir m.a. á þessari hugmyndafræði. Nafnið Lókal glóbal skírskotar til þess að hugsa heildrænt með staðbundnum aðgerðum - að bæta heiminn byrjar heima.

Hópinn skipa: Aðalheiður Atladóttir, arkitekt, Andri Snær Magnason, rithöfundur, Dagný Bjarnadóttir, landslagsarkitekt Falk Krüger, arkitekt og Jökull Sólberg Auðunsson, vefhönnuður.


Um verkefnið HÆG BREYTILEG ÁTT

Hæg breytileg átt auglýsti í febrúar eftir þátttöku þverfaglegra hópa til að vinna að mótun hugmynda sem varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkosti í íslensku þéttbýli.

Umsóknir bárust frá 23 hópum sem skipaðir voru samtals 124 einstaklingum með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Í kjölfarið voru fjórir hópar skipaðir samtals 23 einstaklingum valdar til þátttöku í verkefninu. Vinna hópanna er farin af stað og ólíkt hefðbundnum samkeppnum þar sem hver hópur vinnur í sínu horni og skilar tillögum undir nafnleynd er lögð mikil áhersla á samstarf og samvinnu þvert á hópa. Auk þess er hvatt til gagnrýnis samtals við fjölbreyttan hóp gesta og fagmanna í gegnum allt ferlið og er samræðan nú liður í því. Þann 1. júlí nk. skila hóparnir af sér tillögum og í ágúst verður sett upp sýning á verkefninu. Verkefnið hefur fengið aðstöðu í sögulegu húsi Gasstöðvarinnar að Hverfisgötu 115, frá 1910. Í húsinu var upphaflega íbúð gasstöðvarstjóra á efri hæð en verslun og skrifstofur Gasstöðvarinnar á jarðhæð.

Nánari upplýsingar veita verkefnisstjórar, Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir s. 862 8955 og Hrefna Björg Þorsteinsdóttir s. 864 8955

info@haegbreytilegatt.is
www. haegbreytilegatt.is

Bakhjarlar verkefnisins
:
Bak við verkefnið standa: Hönnunarsjóður Auroru ásamt Hönnunarmiðstöð Íslands, Reykjavíkurborg, Samtök Iðnaðarins, Félagsbústaðir, Búseti og Félagsstofnun Stúdenta, Upphaf fasteignafélag, Listaháskóli Íslands og Velferðaráðuneytið.

Aðrir stuðningsaðilar:
Mannvirkjastofnun
Stjórn
Stjórn verkefnisins skipa:
Anna María Bogadóttir arkitekt, stjórnarformaður, fulltrúi Hönnunarsjóðs Auroru og Hönnunarmiðstöðvar.
Auðun Freyr Ingvarsson framkvæmdastjóri, fulltrúi Félagsbústaða.
Árni Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs, fulltrúi Samtaka Iðnaðarins.
Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri, fulltrúi Félagsstofnunar stúdenta.
Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt, fulltrúi Búseta.
Páll Hjaltason arkitekt, fulltrúi Reykjavíkurborgar.
Pétur Hannesson, framkvæmdastjóri Upphaf fasteignafélag.
Sigrún Birgisdóttir deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands.

Verkefnisstjórar eru Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir og Hrefna Björg Þorsteinsdóttir arkitektar FAÍ.