Fyrirlestrar

Fyrirlestur í Hönnunarsafni ÍslandsSunnudagskvöldið 11. maí kl. 20 mun Karl Aspelund lektor við University of Rhode Island halda fyrirlestur í Hönnunarsafni Íslands í tengslum við yfirstandandi sýningu safnsins á fatnaði fyrrum forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur. Fyrirlesturinn ber heitið ,,Þið talið þá um föt eins og konur?” Fatahönnun, pólitík og formlegur klæðnaður.

Fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við yfirstandandi sýningu safnsins á fatnaði fyrrum forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur. Á hátískuöldinni, sem entist frá því um 1860 til rúmlega 1970, þróuðust siðareglur og venjur í opinberum athöfnum sem hluti af ímyndasköpun vestrænna borgarastétta. Um leið mótaðist fatahönnun sem fag og hátískuímyndir urðu hluti af þjóðfélagslegu kerfi.

Í fyrirlestrinum verður litið á fatnað í opinberum athöfnum vestrænna þjóða og sýnt fram á að fataval og hönnun í opinberum pólitískum tilgangi lýtur öðrum lögmálum en almennt gildir um annan fatnað, einkum þegar litið er til tískufatnaðar og merkjavöru. Skoðað verður hvernig fatahönnun svaraði þörfum pólitískra aðstæðna á tímabilinu og hvernig formleg klæði karla og kvenna þróuðust hvort fyrir sig eftir mismunandi, en mjög íhaldssömum ferlum: Ímyndir karla og fataval stöðnuðu að mestu snemma og eru enn nánast í sjálfheldu, meðan kvenklæðnaður þróaðist alla öldina innan mótsagnakenndra væntinga sem hafa síst minnkað.

Í lok fyrirlestrarins er athyglinni beint að ríkjandi ástandi mála og dregin upp framtíðarsýn út frá fjórum ferlum sem greina má í formlegum klæðum og hátískuhönnun okkar daga.

Dr. Karl Aspelund er mannfræðingur, lektor við textíl-, tískumarkaðsfræði- og hönnunardeild University of Rhode Island og gestalektor í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Karl lagt áherslu á eðli og þróun þjóðlegs klæðnaðar íslenskra kvenna, og fjallað um klæðaburð út frá stöðu fólks í vestrænum samfélögum. er höfundur þriggja bóka: Nýútkomin: Designing: An Introduction, The Design Process, sem er notuð til kennslu í á fimmta tug háskóla í Bandaríkjunum og Fashioning Society, sögulegt yfirlit um stöðu hátískuhönnunar í nútímaþjóðfélagi Vesturlanda. Karl er einnig greinarhöfundur í sýningarskrá Hönnunarsafns Íslands sem gefin var út í tilefni sýningarinnar “Ertu tilbúin frú forseti?”

Fyrirlesturinn er á íslensku, um 45 mínútur að lengd og studdur myndefni. Aðgangur er ókeypis.