Fyrirlestrar

Fyrirlestraröð | Kraftur fjöldans: Orð í belgÍ kvöld, fimmtudag kl. 20:00 í Hafnarhúsinu heldur Nathan Woodhead, frá auglýsingastofunni The Brooklyn Brothers fyrirlestur. Nathan mun segja frá verkefnum Brooklyn Brothers og tala um sagnamennsku og samskipti á stafrænni öld, en á meðal verkefna stofunnar er herferðin Inspired by Iceland sem unnin hefur verið í samstarfi við Íslensku Auglýsingastofuna fyrir Íslandsstofu.

Mannskepnan er móttækileg tilfinningavera og orðin sem hún velur að tjá sig með, segja meira en hún gerir sér grein fyrir. Í dag lifir hún og hrærist í netheimum, þar sem mælt orð hverfa ekki út í loftið heldur sitja eftir, greypt í stein. Þetta erum við. Hvernig getum við verið samkvæm okkur sjálfum, viss um að það sem við segjum og gerum skipti máli fyrir fólkið, sem skiptir okkur máli?

Veruleikinn og hin stafræna veröld verða sífellt samtvinnaðri, og í dag getur rödd vörumerkis rétt eins verið rödd einstaklings. Hvar byrjar ein rödd og hvar hefst sú næsta? Eru nokkur mörk þar á? Vörumerki af öllum stærðargráðum reiða sig meira og meira á venjulegar manneskjur, því að fólk allstaðar að hefur rödd og það er full ástæða til að hlustað sé á þá rödd. Já, í dag erum við öll sagnamenn í 140 stafabilum og þar upp úr. Hvernig getum við verið verið viss um að sögur okkar spretti úr réttri lind og flæði eftir réttum farvegi? Hvernig svala þær réttum þorsta?

Nathan Woodhead hefur starfað á auglýsingastofunni The Brooklyn Brothers frá 2010. Hann sérhæfir sig í þverfaglegum verkefnum, allt frá stafrænni miðlun og samfélagsmiðlum til almannatengsla. Á stofunni hefur hann unnið að verðlaunaverkefnum ásatm BBC Natural History Unit, Jaguar Land Rover, Tate Galleries, Inspired by Iceland, Huffington Post / AOL og Virgin Media. Hann er Íslandsvinur og er á þessari stundu að vinna að bók um margt það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Fyrirlestur hans mun hverfast um hinn sérstaka og einstaklega skapandi heim sem Ísland hefur alið.

Fyrirlesturinn verður haldinn í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 10. apríl og hefst kl. 20.00. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Hér má finna viðburðinn á Facebook.

Hönnunarmiðstöð stendur fyrir fyrirlestrum einu sinni í mánuði yfir veturinn í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Listasafn Reykjavíkur. Fyrirlestrarnir fara fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi á fimmtudögum kl. 20.00. Á fyrirlestrunum kynna hönnuðir og arkitektar verkefnin sín. Þá eru einnig tekin fyrir málefni líðandi stundar, er varða hönnuði og arkitekta.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.