Fyrirlestrar

Hádegisfyrirlestur í LHÍ | Thomas Pausz



Miðvikudaginn 29 janúar. kl. 12.10 heldur Thomas Pausz, aðjúnkt í vöruhönnun erindið „Design Dialogues – Elastic Editions“ í fyrirlestrarröð hönnunar - og arkitektúrdeildar Listaháskóla Ísland, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrarsal A.


Thomas Pausz tekst á við samfélagið í hönnunarstarfi sem hann byggir á samtali. Í verkum sínum beinir hann sjónum að menningarlegri og félagslegri áru framleiðsluferla og þess sem framleitt er. Thomas trúir á hönnun sem miðil gagnrýni og því hefur hann fengist við brýn verkefni samtímans á borð við læsi og sjálfsmynd í vinnusmiðjum og fyrirlestrum. Vinna hans byggir á þverfaglegri nálgun og afurðirnar verða því vörur, kerfi, vinnusmiðjur og útgáfur. Thomas er nú aðjúnkt við Hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ. Árið 2013 gegndi hann rannsóknastöðu í hönnun við Akademie Schloß Solitude.

„Thomas nálgast hönnunarrannsóknir af nákvæmni og þroskaðri vitund um ástand mannsins. Niðurstöðurnar eru hönnunartillögur sem einkennast af kröftugri gagnrýninni vitsmunahyggju en eru þó bæði opnar og fullar af húmor sem gerir þær auðveldlega aðgengilegar almenningi. “ Noam Toran, hönnuður og sýningarstjóri

Í fyrirlestrinum mun Thomas ræða nýleg verkefni með áherslu á spurningar sem varða þátttöku og samráðsferli í hönnun. Þá mun hann kynna nýja hugmynd um útgáfuröð rita um hönnun.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar deildarinnar eigin viðfangsefni og ræða tengsl þeirra við kennslu og uppbyggingu náms við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl sköpunar við kennslu, hönnun, rannsóknir og þekkingaröflun rædd út frá ýmsum sjónarhornum. Við Hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á nám í hönnun á meistarastigi.

Dagskrá vorsins:

29. janúar kl. 12.10
Thomas Pausz, aðjúnkt í vöruhönnun
Elastic Editions

12. febrúar kl. 12.10
Katrín Káradóttir, aðjúnkt og fagstjóri í fatahönnun
Ekkert er af engu komið

26. febrúar kl. 12.10
Massimo Santanicchia, lektor í arkitektúr

The Discovery of Architecture

12. mars kl. 12.10
Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og deildarforseti
Lesið í rými

26. mars kl. 12.10
Bryndís Björgvinsdóttir, aðjúnkt í fræðigreinum

Hafsjór af heimildum: Af hverju er gaman að vera til?

9. apríl kl. 12.10
Lóa Auðunsdóttir, aðjúnkt í grafískri hönnun
Hin nýja fagurfræði

30. apríl kl. 12.10
Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun
Grafískur heimur

Hádegisfyrirlestrarnir eru í Sal A í húsnæði Hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11. Allir eru velkomnir.