Fyrirlestrar

Fyrirlesararnir á HönnunarMars kynntir



DesignTalks, fyrirlestrardagur Hönnunarmiðstöðvar á HönnunarMars 2014 ber titilinn Dealing with Reality. Þar verða framúrskarandi alþjóðlegir hönnuðir og arkitektar leiddir saman í erindum og umræðum um stefnumótun, framsýni og framtíðarsýn. Fundarstjóri er Stephan Sigrist frá svissnesku hugveitunni W.I.R.E.

Fyrirlesarar eru Robert Wong (Chief Creative Officer) hjá Google Creative Lab, Kathryn Firth, arkitekt og hönnunarstjóri hjá London Legacy Development Corporation, Mikael Schiller, stjórnarformaður og stofnandi ACNE, Marco Steinberg, „strategic designer“ og fyrrum stjórandi Helsinki Design Lab. Auk fyrirlesara taka fleiri gestir þátt í umræðum. Endanleg dagskrá og nöfn allra gesta verða kynnt 15. janúar 2014 þegar sala miða á fyrirlestradaginn hefst.

Eins og titill fyrirlestradagsins, Dealing with Reality, gefur til kynna verður rauði þráðurinn áskoranir raunveruleikans og í því samhengi verður áhersla lögð á hönnuði og arkitekta sem stefnumótandi hugsuði og hugsjónafólk með framtíðarsýn. Þá verður í því samhengi velt upp samspili hins raunverulega heims og þess ímyndaða, fantasíu og sýndarveruleika.

Áskoranir raunveruleikans verða til umfjöllunar út frá margbreytilegum sjónarhornum, m.a. uppbyggingu fatahönnunarmerkis, samfélagsbreytingum, nýjum nálgunum í borgarskipulagi, stjórnsýslu, listrænni stjórnun og tækninýjungum. Þá verða rædd ný hlutverk hönnuða og arkitekta og hönnun verður skoðuð sem leiðandi afl á breyttum tímum, í óvæntu samhengi og samstarfi.

Stephan Sigrist, fundarstjóri og kynnir er stofnandi svissnesku hugveitunni W.I.R.E (Web for Interdisciplinary Research Expertise), sem leggur áherslu á þverfaglegt samstarf rannsókna og atvinnulífs og framtíðarrýni.

Dagskrárstjórn er í höndum Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuðar, listræns stjórnanda og kennara við Konstfack, University College of Arts, Crafts and Design, Stokkhólmi.

Myndin er af Robert Wong (Chief Creative Officer) hjá Google Creative Lab.