Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Clara Åhlvik og Ond design



Miðvikudaginn 27. nóvember kl. 12:00 mun Clara Åhlvik, sýningarstjóri frá Röhsska-safninu í Gautaborg halda fyrirlestur í sal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn fjallar um tilurð og efni sýningarinnar Ond design, eða Ill hönnun sem sett var upp í Röhsska safninu 2012 – 2013. Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi Röhsska-safnsins, Þjóðminjasafns Íslands og Hönnunarsafns Íslands.

Clara hefur ferðast víða og haldið námsstefnur og fyrirlestra sem taka á þeim spurningum sem sýningin um illa hönnun setti fram. Megintilgangur sýningarinnar, Ond design var að velta upp spurningum um hönnun og tilgang hennar í breiðara félagslegu samhengi en áður hafði verið gert hjá safninu. Sýningin spurði spurninga eins og: Ef til er „góð“ hönnun ætti þá ekki líka að finnast „vond“ hönnun?

Teknar voru fyrir hugmyndir um lúxus og ofgnótt, tísku og tengingu hennar við t.d. nasisma eða mannréttindabrot. Minnt var á að einhver hannar útrýmingarbúðir, borgarhverfi, handjárn og færibönd. Að lokum hnykkti sýningin á þeirri staðreynd að vestrænt samfélag byggist mikið til á því að kaupa, kaupa og kaupa aðeins meira! Án þess, ef til vill að kaupin bæti líf þeirra sem framleiða, selja eða ...kaupa. Sýningin Ond design varpaði ljósi á áhugaverða hlið hönnunar, sem hefur hingað til ekki verið fjallað mikið um í sýningum.

Clara Åhlvik mun ræða þær spurningar sem komu upp við gerð sýningarinnar sem og viðbrögð fólks við henni.

Fyrirlesturinn hefst kl:12:00 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands og fer fram á ensku.

Verið velkomin!