Fyrirlestrar

Hádegisfyrirlestur í LHÍ | Steinþór Kári Kárason



Miðvikudaginn 27. nóvember kl. 12.10 heldur Steinþór Kári Kárason erindið “Inn’í borg - út’í borg” í fyrirlestraröð hönnunar - og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrarsal A.

Á fyrirlestrinum fjallar Steinþór um aðferð arkitektastofunnar Kurtogpí sem nálgast hvert verkefni í þeirri trú að lausnin sé falin í umhverfinu, á einn eða annan hátt. Hlutverk okkar er að skoða, skilja og skerpa og tjá okkur í arkitektúr. Í Arkitektúr sem mótast af umhverfi sínu og mótar það um leið. Í Arkitektúr sem er rammi utan um starfsemi og þróast í gegnum náið samband við notandann. Í Arkitektúr sem einkennist af notagildi og varanleika, en er um leið síbreytilegur og hefur svigrúm til að eldast og þroskast með eðlilegri notkun. Í Arkitektúr sem er flæðandi og virkar en býr til pláss fyrir þann sem nýtur hans, fyrir hans eigið ímyndunarafl og skynjun á byggingunni og umhverfi hennar, nær og fjær. Í Arkitektúr sem segir sögu…..

Steinþór Kári Kárason er prófessor í arkitektúr við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hann útskrifaðist sem arkitekt frá École Polytechnique Fédérale de Lausanne í Sviss árið 1998. Steinþór hefur kennt við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans frá árinu 2003.

Að námi loknu starfaði hann hjá Studio Granda í Reykjavík og síðar hjá Tony Fretton Architects í London. Árið 2004 stofnaði hann arkitektastofuna Kurtogpí ásamt Ásmundi Hrafni Sturlusyni og hafa þeir rekið stofuna saman síðan þá.

Fyrirlesturinn er í Sal A í húsnæði hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11. Allir eru velkomnir.

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Sneiðmynd- skapandi umbreyting er fyrirlestrarröð hönnunar- og arkitektúrdeildar. Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar deildarinnar eigin viðfangsefni og áherslur í starfi og ræða tengsl þess við kennslu og uppbyggingu náms við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl sköpunar við kennslu, hönnun, rannsóknir og þekkingaröflun rædd út frá ýmsum sjónarhornum.

Við hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á nám í hönnun á meistarastigi.

Fyrirlestur Steinþórs er sá síðasti á þessu ári. Ný dagskrá verður kynnt í upphafi nýs árs.