Fyrirlestrar

Fyrirlestraröð | Gagarín: Að skilja í gegnum upplifun



Á fyrirlestri Hönnunarmiðstöðvar, þann 21. nóvember, ætlar Nils Wiberg, „interaction designer“, segja frá starfi sínu við hönnunar- og margmiðlunarstofuna Gagarín. Hann mun ræða þau tækifæri og vandamál sem felast í myndrænni og gagnvirkri miðlun þekkingar. Fyrirlesturinn verður á ensku og fer fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 21. nóvember kl. 20:00.


Nils mun fjalla um hvernig Gagarín leitast við að ná að jafnvægi á milli allra þeirra ólíku þátta sem gæta þarf að við hönnun sýningar og hvernig lausnir stofan hefur útfært til að ná árangri í miðlun upplýsinga til áhorfandans. Einnig mun hann fjalla um þær áskoranir sem hönnuðir þurfa að kljást við í sífellu; að ná jafnvægi á milli nýrrar stafrænnar tækni og nýrra bylgna í fagurfræðilegum útfærslum.

Gagarín hafa á síðasta áratug vakið mikla athygli fyrir margmiðlunarlausnir sínar og hafa unnið fjölda fagverðlauna. Stofan vinnur á mörkum hönnunar, vísinda, lista og tækni en í samsuðu þessara þverfaglegu greina verða til nýjir möguleikar í úrvinnslu verkefna. Þar starfar saman hópur fólks með fjölbreytta sérþekkingu og reynslu, þar mætti nefna listræna stjórnendur, hreyfimyndateiknara, viðmótshönnuði, grafíska hönnuði, forritara, kvikmyndagerðamenn, hjóðmenn o.fl. Gagarín hefur haslað sér völl í margmiðlunar- og sýningarhönnun í Noregi að undanförnu en af samstarfsverkefnum þeirra á Íslandi mætti nefna Landnámssýninguna 871+/-2, Skrímslasetrið á Bíldudal og sýningar fyrir Orkuveituna.

Fyrirlesturinn fer fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 21. nóvember kl. 20:00.
Viðburðurinn á Facebook.


Hönnunarmiðstöð stendur fyrir fyrirlestrum einu sinni í mánuði yfir veturna í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Listasafn Reykjavíkur. Fyrirlestrarnir fara fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi á fimmtudögum kl. 20. Á fyrirlestrunum kynna hönnuðir og arkitektar verkefnin sín. Þá eru einnig tekin fyrir málefni líðandi stundar, er varða hönnuði og arkitekta. Allir velkomnir.