Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Á undan hverri spurning kemur svariðMiðvikudaginn 30. október verður Hildigunnur Sverrisdóttir, fagstjóri í arkitektúr með hádegisfyrirlestur í fyrirlestrarröð hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, Sneiðmynd- skapandi umbreyting. Fyrirlesturinn fer í Þverholti 11, fyrirlestrasal A og byrjar kl. 12:10. Allir eru velkomnir.


Þegar við leitum lausna og svara í flóknum heimi er mikilvægt að beina sjónum að því sem kemur á undan spurningunni sjálfri. Í þessu samhengi má líta á arkitektúr sem aðferðarfræði sem getur lýst öllum gerðum manngerðs umhverfis, ekki bara húsbyggingum, heldur líka huglægum strúktúrum, samningum, loforðum. Tungumál eru byggingar, lög eru byggingar - og byggingarnar endurspegla lög og tungumál þess samfélags sem þau standa í og standa fyrir. Kannski er eitt mikilvægasta viðfangsefni nútímaarkitekta að hanna aðferðarfræði hins ósýnilega en alltumlykjandi - kannski er viðfangsefni arkitekta á komandi tímum tíminn sjálfur. Hvernig mætti það vera? Er nemendum óhætt í slíkri rakaflækju?

Í erindinu mun Hildigunnur reyna að leita að því sem kemur á eftir en ekki síður því sem kom á undan spurningunni: Hvert er erindi og hlutverk arkitektsins á öld fjórvíðunnar og upplausnarinnar?

Hildigunnur Sverrisdóttir hefur í gegnum verk sín og kennslu einbeitt sér að félagslegu, pólítísku og verufræðilegu hlutverki arkitektúrs. Hún stundaði arkitektúrnám sitt í París og Kaupmannahöfn, útskrifaðist frá Kunstakademiets Arkitektskole árið 2004 og hefur undanfarin áratug sinnt jöfnum höndum hefðbundnum teiknistofustörfum hérlendis og erlendis, sem og óhefðbundnari mótun samhengis og sköpunar, sinnt fræðastarfi og kennslu meðal annars við Listaháskóla Íslands, ásamt því að sinna ýmsu uppbyggingar- og félagsstarfi á ýmsum vettvangi. Hildigunnur hefur kennt við LHÍ frá 2006 og sinnt starfi fagstjóra í arkitektúr frá 2012.

Næstu fyrirlestrar:

13. nóvember, Linda B. Árnadóttir, lektor í fatahönnun
Mynstraður textíll

27. nóvember, Steinþór Kári Kárason, prófessor í arkitektúr
Inní borg- út´í borg