Fyrirlestrar

Hádegisfyrirlestur í LHÍ | Garðar Eyjólfsson



Miðvikudaginn 16. október kl. 12.10 heldur Garðar Eyjólfsson erindið “Leitin að goðsögnum samtímans” í fyrirlestrarröð hönnunar - og arkitektúrdeildar Listaháskóla Ísland, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrarsal A.

Garðar Eyjólfsson er fagstjóri og lektor í vöruhönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hann lauk meistaragráðu samhengisfræðilegri hönnun frá Design Academy Eindhoven árið 2011.

Garðar nálgast verk sín út frá samhengi, efni og verkferlum með sérstaka áherslu á orku og umbreytingu efnis. Með því hugarfari að hugtakið tími þrífist best á kosmískum skala. Hann leitast við að þýða þennan skala inn í verk sín þar sem efnið verður lifandi afleiðing verkferilsins og að orkan í verkinu sé sýnileg. Í samtali við þessa raunvísindalegu nálgun hefur Garðar blandað saman rannsóknum á tenglsum galdra, trúabragða og vísinda í gegnum aldirnar og hvernig birtingarmynd sömu mýtólógíu breytist eftir forsendum mismunandi samhengis, hvort sem það eru stökk í tækniframþróun eða með félagslegum breytingum.

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar deildarinnar eigin viðfangsefni og áherslur í starfi og ræða tengsl þess við kennslu og uppbyggingu náms við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl sköpunar við kennslu, hönnun, rannsóknir og þekkingaröflun rædd út frá ýmsum sjónarhornum.

Við hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á nám í hönnun á meistarastigi.