Hönnunar og arkitektadeild LHÍ stendur fyrir ráðstefnu um hlutverk og áhrif breiðgatna og hringbrauta á þróun borgarumhverfis. Hún fer fram 26. - 27. september í Þverholti 11. Liza Fior frá muf architecture/art heldur lykilfyrirlestur kl 20:00 fimmtudag 26. september en samfelld fyrirlestradagskrá er frá kl 9- 16:30 á föstudeginum.
Sjá nánara um dagskrá í viðhengi og
hér
Ráðstefnan beinir sjónum að hringbrautum og breiðgötum frá margvíslegum sjónarhornum. Áhrif þessa sögulega borgarlíkans á þróun borgarumhverfis er skoðað í breiðara alþjóðlegu samhengi og með hliðsjón af þróun hringbrautar í Reykjavík frá 1927. Auk þess að vera umferðarmannvirki og stuðla að tengingum borgarhluta á milli skapa hringbrautir jaðra og borgarmörk með aðgreiningu innra og ytra ástands, og marka þar með skil milli miðbæja og úthverfa. Hér verður leitast við að kanna hringbrautir sem breiðgötur og áfangastaði í borginni, burðarás í flæðikerfi borga, sem umferðarmannvirki en ekki síður sem jaðra sem aðskilja ólíka borgarhluta og ástand.
Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans, ásamt Háskóla Íslands og Université Libre de Bruxelles (Faculty of Humanities & Faculty of Architecture La Cambre Horta), boða til ráðstefnunnar.
Dagskráin er öllum opin og er ætluð fagfólki jafnt sem almenningi. Fyrirlestrar og umræður fara fram á ensku.