Fyrirlestrar

Fyrirlestrarröð Toppstöðvarinnar | Hallgerður Hallgrímsdóttir ljósmyndari og Dieter Kunz myndlistamaður



Hallgerður Hallgrímsdóttir ljósmyndari og Dieter Kunz myndlistamaður halda erindi laugardaginn 12. janúar kl. 11-13 í Toppstöðinni.

Í fyrirlestrinum segir Hallgerður Hallgrímsdóttir frá ljósmyndun sinni. Bæði verða kynnt tilbúin verk og sagt frá ferlinu frá hugmynd að verki út frá persónulegri reynslu listamannsins. Áhersla verður lögð á úrval og samsetningu ljósmynda eða 'editing'.

Hallgerður Hallgrímsdóttir lauk námi í Glasgow School of Art í myndlist með ljósmyndun sem miðil vorið 2011. Hún var valin ein sýnenda á samsýninguna Fresh Faced + Wild Eyed, sem stóð yfir í The Photographer's Gallery í London nú í september og var þátttakandi í alþjóðlega ljósmyndaverkefninu European Borderlines. Einnig mun hún ásamt Páli Stefánssyni ljósmyndara stýra raunveruleikaþætti fyrir ljósmyndara á Skjá Einum sem hefst í byrjun næsta árs.

Túrbínusalur Toppstöðvarinnar verður rammi utan um innsetningu listamannsins Dieter Kunz. Dieter nýtir lazer, video, skjá- og hljóðmyndir, þar sem áhorfendur verða virkir þátttakendur í verkinu. Dieter er þýskur listamaður en hann hefur unnið og sýnt verk í Suður Ameríku, Asíu og á meginlandi Evrópu, auk Íslands. Í tilfelli Toppstöðvarinnar rannsakar Dieter samband þessarar fyrrum rafstöðvar við landið og reynir að byggja brýr til annarra staða. Megininntak innsetningarinnar er að tengja rafstöðina við staði sem eiga eitthvað sammerkt með rafstöðinni og leyfa áhorfendum að verða starfsmenn nýja orkuversins. Dieter mun einnig fjalla um fyrri verk. Fyrirlestur hans fer fram á ensku.

Toppstöðin, orkuver verkþekkingar og hugvits, heldur opna fyrirlestra fyrsta laugardag í hverjum mánuði í vetur frá kl. 11-13. Toppfólk stöðvarinnar mun kynna hugmyndafræði verka sinna, vinnuferli og áskoranir á opnum fyrirlestrum sem fram fara í mælaherbergi Toppstöðvarinnar í Elliðaárdal fyrir áhugasama. Umræður verða halnar í kjölfarið og léttar veitingar í boði.

Nánar um fyrirlestraröð Toppstöðvarinnar 2012 - 2013.