Í fyrirlestrinum fjalla þær um hönnunarferlið og þverfaglega nálgun á
fyrirbærinu náttúra. Mýrin, bensínstöð farfuglanna og öndunarfæri
landsins, var í ferlinu skorin í sneiðar, bútuð í sundur og krufin.
Leitast var við að færa fræðin nær okkur, varpa ljósi á hringrásina og
upphefja jarðveginn. Í Norræna húsinu var mýrin að lokum saumuð aftur
saman, troðið niður í kjallara og skellt upp á vegg.
Hönnuðurnir tveir leiða nú saman hesta sína á hönnunarsviðinu í fyrsta
sinn síðan þær tengdust böndum í myndmenntartímum í fjölbrautaskóla.
Brynhildur nam vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og Gerrit Rietveld
Academie í Hollandi og hefur síðan unnið sjálfstætt sem hönnuður, meðal
verkefna má nefna Vík Prjónsdóttir, Súkkulaðifjöllin og Stefnumót
hönnuða og bænda. Magnea útskrifaðist sem arkitekt árið 2009 frá
Architectural Association í London og hefur m.a. unnið við ráðgjöf og
rannsóknir á borgarhönnun og kennt arkitektúr við University of East
London.
Lífið í Vatnsmýrinni er sýning í Norræna húsinu, hönnuð af Brynhildi
Pálsdóttur hönnuði og Magneu Guðmundsdóttur arkitekt. Sýningin er
samstarfsverkefni Norræna hússins, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar
og er liður í því að endurheimta votlendið í Vatnsmýrinni og virkja
friðinn í varplandinu. Verkefnastjóri sýningarinnar er Katrín Ragnars og
sýningarstjórn í höndum Sigrúnar Kristjánsdóttur. Um grafíska hönnun
sáu Ármann Agnarsson og Jónas Valtýsson.
Fyrirlesturinn verður haldinn fimmtudaginn 20.septmber í Listasafni Reykjavíkur kl. 20:00.
Sýningin „Lífið í Vatnsmýrinni“ stendur til 4 nóvember.
http://www.nordice.is/norraena-husid/frettir/nr/1442