Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Blóði drifin byggingarlist

Alþjóðastjórnmálafræðingurinn Hilmar Magnússon heldur fyrirlesturinn: Blóði drifin byggingarlist - arkitektúr í stríði og friði - Gamla brúin í Mostar í Opna listaháskólanum fimmtudaginn 26. apríl kl.12:05 í hönnunar- og arkitektúrdeild, Skipholti 1, stofu 113.

Í þessum hádegisfyrirlestri mun Hilmar Magnússon alþjóðastjórnmálafræðingur fjalla um samfélagslegt hlutverk byggingarlistarinnar í átökum mismunandi menningarhópa víða um heim. Hann mun að þessu sinni taka fyrir átökin í Bosníu og Herzegovínu á 10. áratug 20. aldar og fjalla um "Gömlu brúna" eða Stari Most í bænum Mostar. Hilmar mun skyggnast með áhorfendum aftur í tímann og fjalla um tilurð brúarinnar og sögu fram að þeim tíma er hún var sprengd í loft upp haustið 1993. Þá mun hann fjalla um Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hlutverk hennar við verndun menningararfs og aðkomu að endurbyggingu brúarinnar. Í ár eru 40 ár liðin frá gildistöku samningsins um verndun heimsminja en stofnunin hefur á þessum tíma víða komið við sögu og hafa verkefni hennar jafnt vakið aðdáun, spurningar og jafnvel deilur.

Hilmar Magnússon útskrifaðist með BA gráðu í arkitektúr frá Arkitektskolen i Aarhus árið 2001. Hann stundaði einnig nám á meistarastigi við skólann og vann eftir það um árabil á arkitektastofu í Reykjavík. Samhliða vinnunni hóf hann nám í Alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu sumarið 2011. Hilmar lagði aðaláherslu á menningu í námi sínu við HÍ, bæði tengsl arkitektúrs og átaka, en einnig hlutverk menningar í íslenskri utanríkisstefnu á árunum 1991-2011.

Allir velkomnir Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands

https://www.facebook.com/#!/events/346025725459769/