Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Hugsteypan



VINNUSTOFAN, HÁDEGISFYRIRLESTUR
mánudaginn 21. nóvember kl 12:30, í Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91 Reykjavík.

HUGSTEYPAN
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir fjalla um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestraröðinni VINNUSTOFAN í myndlistardeild Listaháskóla Íslands mánudaginn 21. nóvember kl 12:30. Fyrirlestrarnir eru öllum opnir.


Hugsteypan er samstarfsverkefni Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur (f. 1976) og Þórdísar Jóhannesdóttur (f. 1979). Þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Hugsteypan varð til árið 2008 er þær Ingunn og Þórdís sýndu í fyrsta skipti samvinnuverk í Start Art Listamannahúsi. Síðan þá hefur Hugsteypan tekið þátt í fjölda sýninga t.a.m. í Listasafni Árnesinga, Kling & Bang Gallerí, Hafnarborg og nú nýlega í CAVE, listamannareknu rými í Detroit.

Verk Hugsteypunnar eru gjarnan margþættar innsetningar sem bera keim af rannsóknarferli þar sem þættir eins og listasaga, sjónmenning, framsetning og túlkun verka eru settir undir smásjá. Oft eru verkin unnin út frá kerfum og greiningarferlum, bæði þekktum og heimatilbúnum.

Nánar um HUGSTEYPUNA: http://hugsteypan.com/

VINNUSTOFAN er íverustaður stöðugrar gerjunar, ígrundunar, tilviljana, mistaka og úrvinnslu. Í haust munu ólíkir myndlistarmenn leiða viðstadda í gegnum samtal hugar og handa, vinnuferli og aðferðir, í fullvissu jafnt sem efa. Allir eiga þeir sér sína vinnustofu, hvort sem hún er aðgreint rými sem slík ellegar horn á stofuborði, vinnustofa flakkarans sem gerir alla staði og engan að sínum eða skissubók í hendi.

Allir velkomnir
MYNDLISTARDEILD LHÍ