Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús

 
 
Norræna Húsið í Reykjavík skipuleggur syrpu fyrirlestra veturinn 2011-2012 sem hafa það að markmiði að kynna nýja norræna byggingarlist. Fyrirlestrarnir miðast við að höfða til allra þeirra sem áhuga hafa á vandaðri byggingarlist og áhersla er lögð á að nálgast viðfangsefnið frá ýmsum sjónarhornum.

Síðasti fyrirlestur haustsins verður næstkomandi fimmtudagskvöld eða 17. nóvember. Þá mun Sigurður Einarsson frá Batteríinu Arkitektum segja frá hugmyndafræði og mótun Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss sem opnað var formlega á menningarnótt síðastliðinni.

Harpan er staðsett við gömlu höfnina í Reykjavík og er nokkuð áberandi í umhverfi sínu. Klæðning byggingarinnar er afar sérstök en hún byggir á þrívíðum glerstrendingum sem endurvarpa dagsbirtunni á fallegan hátt inn í húsið. Tónlistarhúsið hefur fengið mikla umfjöllun - og þá mestmegnis um tilurð og framkvæmd þess, en hér verður sjónum beint að mótun þess og hugmyndafræðinni bak við útlitið.

Nú nýverið hlutu Landslag ehf. og Batteríið Arkitektar höfundar svæðisins umhverfis húsið norræn arkitektaverðlaun á Arkitekturmässan í Gautaborg fyrir "besta almenningsrými" á Norðurlöndum.

Fyrirlesturinn er haldinn í aðalsal Norræna Hússins og hefst klukkan 20. Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og allir eru velkomnir.

Batteríið Arkitektar hófu rekstur sinn árið 1988, og hafa unnið jöfnum höndum að byggingum sem skipulagi og ráðgjöf. Stofan hefur unnið bæði innanlands og erlendis og unnið verkefni í samvinnu með stórum teiknistofum erlendis, svo sem Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús með Henning Larsen Architects og ATT arkitektum auk Ólafs Elíassonar listamanns, sem hlaut 1. verðlaun í arkitektasamkeppni. Meðal verka þeirra eru Skálinn, viðbygging við Alþingishúsið sem hlaut Menningarverðlaun DV árið 2003.

www.batteriid.is
www.landslag.is

Norræna Húsið í Reykjavík, Sturlugötu 5, 101 Reykjavík. www.nordice.is