Alþjóðleg athafnavika fer fram dagana 14. – 20. nóvember 2011 og tengir saman fólk og hugmyndir um allan heim, þvert á öll landamæri og menningarstrauma.
Athafnavikan verður sett formlega í Hörpu þann 14. nóvember
næstkomandi í upphafi TEDx Reykjavík en það er Katrín Júlíusdóttir,
iðnaðarráðherra sem mun gera það og jafnframt taka við fyrstu Athafnateygjunni.
TEDxReykjavík er nú haldið í annað sinn á Íslandi og fer fram í
Kaldalóni í Hörpu á milli 12.30 – 17.00. Á eftir verða bornar fram
léttar veitingar. Miðaverð er 3000 krónur. Athugið að ráðstefnan fer
fram á íslensku og ensku. Einungis 170 sæti í sölu.
Þema TEDx Reykjavík í ár er Technology, Entertainment, Design og opinn flokkur x (TEDx). Staðfestir frummælendur eru: Danielle Morill, Eric Koester,
Ari Kristinn Jónsson rektor HR, Ingibjörg Gréta stofnandi og
framkvæmdastjóri Reykjavík Runway og Guðrún Pétursdóttir formaður
stjórnlaganefndar.
Í athafnavikunni gefst fólki kostur á að sækja viðburði sem hannaðir eru til þess að kynna leiðir til að nýta hæfileika sína til nýsköpunar, athafnasemi og frumkvöðlahugsunar. Með þessu frumkvæði mun næsta kynslóð frumkvöðla fá innblástur og hvatningu til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.
Með þátttöku í Athafnaviku mun athafnafólk læra leiðir til að afla sér þekkingar, virkja hæfileika sína og afla sér þeirra sambanda sem nauðsynleg eru til að koma á fót sjálfbærum rekstri með jákvæð áhrif á líf þeirra, fjölskyldu og samfélag.
Fyrri Athafnavikur hafa heppnast gríðarlega vel og eru frábært dæmi um það hverju hægt er að áorka með því að steypa saman ólíkum hugmyndum og menningarstraumum til eflingar athafnasemi. Markmið Athafnaviku er að frumkvöðlar verði brautryðjendur efnahagslegrar og samfélagslegrar hagsældar um allan heim. Umsjónaraðili Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi er Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur.
www.athafnavika.is