Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Tvöfaldur espresso með klæðskeranum

Gunnar Hilmarsson (Andersen & Lauth) flytur fyrirlestur um Indriða Guðmundsson klæðskera í Listasafni Kópavogs-Gerðarsafni, laugardaginn 15. október kl. 14:00.

Fatahönnunarfélag Íslands veitti Indriðaverðlaunin í fyrsta sinn á opnun 10 ára afmælissýningar félagsins í Gerðarsafni laugardaginn 8. október síðastliðinn. Verðlaunin verða veitt annað hvert ár þeim fatahönnuði sem þykir hafa skarað fram úr.

Verðlaunin eru kennd við klæðskerann Indriða Guðmundsson, heitinn, sem þekktur var fyrst og fremst fyrir gæði og fagmennsku. Indriði var mikill talsmaður fatahönnunarverðlauna á Íslandi. Honum þótti mikilvægt að félagið ætti sína eigin uppskeruhátíð þar sem félagsmenn hittust, ræddu málin og fögnuðu saman.

Indriði var fagmaður fram í fingurgóma og helgaði sig leitinni að hinu fullkomna sniði. Hann lagði gríðarlega áherslu á gæði í sinni vinnu og eins og hann lýsti sjálfur seldi hann ekki skyrtur, heldur uppáhaldsskyrtur. Hann leitaðist við að gera fullkomnar flíkur, fjöldaframleiddi eftir gömlum aðferðum og bar mikla virðingu fyrir handverkinu ásamt sköpunarferlinu sjálfu. Indriði lagði auk þess mikið upp úr efnisvali. Gott dæmi um það eru bindin hans, en hann framleiddi 14 tegundir af svörtum bindum og lá munurinn á þeim í vefnaðinum.

Indriði kenndi klæðskurð við Iðnskólann í Reykjavík árin 1994-2000 og síðar við Listaháskóla Íslands ásamt því að starfa við búningagerð. Árið 2000 hóf Indriði störf sem sjálfstætt starfandi sniðgerðarmaður fyrir íslenska hönnuði og verslanir. Má þar nefna Spakmannsspjarir, ELM og GK. Indriði var einn af stofnendum Hönnunarfélags Íslands. Árið 2003 stofnaði Indriði verslun við Skólavörðustíg í Reykjavík. Þar verslaði hann með skyrtur og annan herrafatnað sem framleiddur var undir hans eigin nafni. Árið 2006 flutti hann verslun sína til Kaupmannahafnar og rak hana þar til hann lést 30. desember sama ár.

Gunnar Hilmarsson hefur hannað fyrir fyrirtæki á borð við Nokia, Top Shop, Jack & Jones, Birger et Mikkelsen og All Saints og starfar nú sem yfirhönnuður hjá Andersen & Lauth. Hönnun Andersen & Lauth er seld í yfir 25 löndum um allan heim. Gunnar er fyrrum formaður Fatahönnunarfélags Íslands og Hönnunarmiðstöðvar.

Boðið verður upp á leiðsögn sunnudaginn 16. október kl. 14.00.

gerdarsafn.is