Dr. Arndís S. Árnadóttir hönnunarsagnfræðingur flytur fyrirlestur í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ um verk Helga Hallgrímssonar (1911-2005) húsgagnaarkitekts, þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 20.
Helgi telst til frumherja í stétt íslenskra húsgagnaarkitekta sem sóttu nám til útlanda á millistríðsárunum. Í verkum hans má greina ríkjandi hugmyndir módernismans um notagildi, efnisnotkun og stíl sem hann vísaði í sem „tímalausan“ og tengja má við nútímalega norræna hönnun eftirstríðsáranna.
Sjónum er beint að verkum og hlutverki Helga Hallgríms-
sonar um miðbik síðustu aldar við mótun nútímaheimilisins á Íslandi þegar útlit húsgagna breyttist í samræmi við nýju húsin og erlenda fagurfræðilega strauma og skipulag og ásýnd eldhússins varð sífellt þýðingarmeira. Hann starfrækti fyrstu húsgagna- og innréttinga- teiknistofuna hér á landi og haslaði sér jafnframt völl á opinberum vettvangi í samvinnu við arkitekta við innréttinga- og húsgagnahönnun auk kennslu í teikningu og stílfræði við Iðnskólann í Reykjavík um áratugaskeið.
Arndís lauk MA-prófi í hönnunarsögu frá De Montfort-háskólanum í Leicester á England 1996 og varði
doktorsritgerð sína, Nútímaheimilið í mótun. Fagurbætur,
funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970, við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands í ágúst s.l. Hún veitti bókasafni Myndlista- og handíðaskóla Íslands, síðar Bókasafni Listaháskóla Íslands forstöðu og hefur starfað við listupplýsingaþjónustu og íslensk menningarsöguleg söfn, síðast við Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ. Hún er nú sjálfstætt starfandi fræðimaður og ráðgjafi.
honnunarsafn.is