Fyrirlestrar

Tækifæri í handverki og listiðnaði

Fimmtudaginn 6. október kl. 17.00 flytur Sunneva Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri HANDVERKS OG HÖNNUNAR erindi í Gerðubergi.

Í erindinu leitast hún við að svara spurningunum; Hvaða tækifæri felast í handverki og listiðnaði? Hvað er handverk og hvað hönnun? Hvað er góður minjagripur og fyrir hverja? Hvað er góð söluvara og hvernig er hún verðlögð? Hvernig má skapa sér atvinnu á þessu sviði?

Aðgangur er ókeypis, allir velkomnir.

Að erindinu loknu verður boðið upp á hressingu og gestum gefst kostur á að skoða sýninguna LeikVerk með sýningarstjóranum Önnu Leoniak.

Sunneva hefur starfað sem framkvæmdastjóri HANDVERKS OG HÖNNUNAR frá árinu 1999 og hefur því góða innsýn og mikla reynslu þegar kemur að möguleikum handverks og listiðnaðar. Sunneva útskýrir hlutverk, verkefni og þjónustu HANDVERKS OG HÖNNUNAR. Hún mun einnig ræða skilgreiningar í handverki, listiðnaði og hönnun og sýna fjölda mynda. Sunneva hefur um árabil haldið fræðsluerindi um ýmis mál tengd handverki og listiðnaði víða um land allt.

Erindið höfðar til allra sem vilja fræðast um möguleika í hönnun, handverki og listiðnað. Erindið er haldið í tengslum við sýninguna LeikVerk sem er samstarfsverkefni Menningar-miðstöðvarinnar Gerðubergs og HANDVERKS OG HÖNNUNAR.

Sýningin stendur yfir í Gerðubergi frá 10. september - 6. nóvember 2011. Sýningarstjóri er Anna Leoniak arkitekt og vöruhönnuður.

Á sýningunni má sjá fjölbreytt og skemmtileg verk sem tengjast öll leik á einn eða annan hátt.