Fyrirlestrar

26. ágúst | Taktu daginn frá!



26. ágúst næstkomandi verður haldin opin ráðstefna þar sem fjallað verður um mótun hönnunarstefnu Íslands og hvaða þýðingu hönnunarstefna hefur fyrir íslenskt samfélag og hönnuði.

Hinar skapandi greinar hafa verið staðfestar sem mikilvægur hvati til verðmætasköpunar s.s. í iðnaði og þjónustu og geta því lagt sitt af mörkum við að auka samkeppnishæfni landsins í heild. Innan skapandi greina telst hönnunargeirinn sér í lagi mikilvægur og hafa mörg lönd sett það sem forgangsverkefni sitt að styrkja hann - sem lið í að styrkja samkeppnishæfni sína.

Hönnun er nátengd markaði og atvinnulífi. Hönnuðir vinna í samstarfi við aðila hvaða greinar sem er, til sjávar eða sveita, við hlið fræðimanns, tónlistarmanns, verkfræðings eða með fyrirtækjum - svo ljóst er að hönnun tengist mörgum, ef ekki flestum sviðum atvinnulífsins. Hönnunargeiranum hefur undanfarin ár vaxið fiskur um hrygg en notkunarmöguleikar hennar eru þó ekki fullnýttir. Víða leynast vannýtt tækifæri til vöruþróunar og þjónusthönnunar og víða er enn litið á hönnun sem útlitslegan þátt.

Á ráðstefnunni munu erlendir fyrirlesarar kynna mismunandi reynslu af þeim ólíku hönnunarstefnum sem nágrannalönd okkar hafa og innlendir fyrirlesarar fara í gegnum stöðuna hérna heima og hver brýnustu málefnin eru. Staðsetning, dagskrá, skráning og aðrar nánari upplýsingar verða auglýstar síðar. Skráðu þig á póstlista Hönnunarstefnunnar hér: http://eepurl.com/eyFqw