Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Elísabet V. Ingvarsdóttir



Dags: Sunnudagur, 5. desember 2010
Tími: 14:00
Staðsetning: Hönnunarsafn Íslands, Garðatorgi 1, Garðabæ



Fyrirlestur á aðventu

Elísabet V. Ingvarsdóttir hönnunarsagnfræðingur heldur fyrirlestur á annan í aðventu, sunnudaginn 5. desember í Hönnunarsafni Íslands. Elísabet ætlar að fjalla um íslenska húsgagna-og vöruhönnun og tengja þessi hönnunarsvið því tímabili sem nú gengur í garð, sjálfri jólahátíðinni.

Á síðustu árum hefur mikil gróska og metnaður einkennt íslenska hönnun og hún verið umtöluð og áberandi í allri umfjöllun. En hvaðan liggur þessi strengur? Elísabet mun í fyrirlestrinum segja frá þeirri kynslóð manna sem fyrstir komu að utan úr sérhæfðu námi sem menntaðir hönnuðir og tengja þeirra tíma við samtímann. Skoðaðir verða möguleikar og vonir þessara frumkvöðla í atvinnusköpun í samhengi við þámöguleika og vonir sem ört stækkandi hópur íslenskra hönnuða stendur frammi fyrir í dag, ekki síst í ljósi niðurstaðna úr nýrri yfirgripsmikilli rannsókn á hagrænu gildi skapandi greina á Íslandi. Elísabet mun í erindi sínu ferðast fram og til baka í tíma og skoða stöðuna út frá ýmsum tímabilum, verkum og sjónarhornum þar sem jólin eiga meðal annars sinn sess. Ýmsar hugleiðingar verða settar fram um stefnur, strauma áhrif og fyrirmyndir og sagan skoðuð í ljósi þess.

Elísabet lauk mastersprófi í hönnunarsagnfræði frá Kingston University London árið 2006. Elísabet er að auki menntaður innanhúsarkitekt frá North London University 1981 og vann við það um árabil. Hún lauk prófi til kennsluréttinda frá HÍ 1993 og hefur kennt hönnunarsögu og hönnunargreinar við Iðnskólann í Reykjavík nú Tækniskólann, Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík. Elísabet hefur starfað í ráðum og nefndum sem snúa að hönnun og hönnunarmenntun og var hönnunargagnrýnandi Morgunblaðsins á árunum 2007-2009. Hún hefur komið að sýningarstjórnun hönnunarsýninga svo sem farandsýningunni Icelandic Contemporary Design, furniture, product design, architecture sem er nú á ferðarlagi um heiminn og skrifaði samnefnda bók tengda sýningunni.