Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Nýtt norrænt landslag

 
 
 
 
 
Þriðjudaginn 23. nóvember kl 20.00 mun Guja Dögg Hauksdóttir, ásamt systrunum Hafdísi og Dagnýju Bjarnadætrum, segja frá sýningunni ”Nýtt norrænt landslag” (New Nordic Landscapes) sem var haldin í Shanghai í sumar í tengslum við Expo 2010. Á fyrirlestrinum sem er haldinn í Norræna húsinu, verða sýningin og hönnunarferlið kynnt í máli, myndum og hljóðum. Hljóðspuninn “Nýtt norrænt Landslag með Kínverksu ívafi“ verður flutt í lokin.

Markmiðið með sýningunni var að vekja athygli á vaxandi mikilvægi og möguleikum landslagsarkitektúrs í mótun manngerðs umhverfis, ekki síst á tímum þar sem vistvæn nálgun er í brennidepli, nýting náttúruauðlinda, byggðaþróun, samgöngumál, ferðamennska og upplifunarhönnun í borgarumhverfinu.

Á sýninguna í Shanghai fóru sex sérvalin verk, eitt frá hverju norður-landanna ásamt Grænlandi. Fulltrúi Íslands á sýningunni var jarðvarmavirkjun á Hellisheiði. Aðalhönnuður landslagsmótunar og fyrirkomulags mannvirkja á svæðinu er Finnur Kristinsson landslags-arktitekt FÍLA hjá Landslagi ehf og mun hann kynna verkefniðí stuttu máli. Hönnuðir bygginga er Tark arkitektastofa.

Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt FÍLA hannaði sýninguna í Shanghai og Hafdís Bjarnadóttir tónskáld samdi sex hljóðverk, eitt fyrir hvert verkanna á sýningunni.

Framkvæmdastjóri sýningarinnar var Kjersti Wiikström, arkitekt m.a. hjá DAC. Guja Dögg Hauksdóttir var sýningastjóri íslenska hlutans. Verkefnið var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og var samstarfsverkefni arkitekta- og menningarstofnana á norðurlöndunum, Museum of Finnish Architecture, sænska Arkitekturmuseet, Norsk Form, DAC - Dansk Arkitektur Center og Norræna hússins í Reykjavík.