Fyrirlestrar

Fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar | Vík Prjónsdóttir



Hönnunarteymið Vík Prjónsdóttir segir frá ferli, ferðalögum, gjörningum, sýningum og samstarfi liðinna ára í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur nk. fimmtudag 16. september kl. 20, í fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar, Listasafns Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands.  
 

„Hún er heilluð af sagnahefð, innblásin af hegðun náttúrunnar og nið borgarinnar. Hún trúir á hið yfirnáttúrulega og ber virðingu fyrir því ósýnilega. Hún er kölluð Vík Prjónsdóttir og hefur einbeitt sér að því að vinna með staðbundna menningu, hráefni og framleiðslu.“


Síðastliðinn fimmtudag opnaði sýningin HIDDEN WORLD í hönnunargalleríinu SPARK DESIGN SPACE á Klapparstíg þar sem sjá má nýjustu teppalínu Víkur Prjónsdóttur.  

Vík Prjónsdóttir var sköpuð árið 2005 af fimm hönnuðum og prjónaverksmiðjunni Víkurprjón í Vík í Mýrdal. Vík Prjónsdóttir er skapandi teymi sem hannar og framleiðir gæða vöru úr íslenskri ull.  

Á síðastliðnum fimm árum hefur Vík Prjónsdóttir ferðast, haldið fyrirlestra, gjörninga, sett upp sýningar og selt vörur sínar alþjóðlega auk þess að hafa hlotið mikið lof og umfjöllun í erlendum fagtímaritum.  

Vík Prjónsdóttir hlaut Menningarverðlaun DV í flokki hönnunar árið 2009 og segir meðal annars í umsögn dómnefndar: „Hópurinn hafði að leiðarljósi að nýta þekkingu og vélarkost Víkurprjóns og sameina hann hugviti og framsýni hönnuðanna. Þarna urðu til frábærar vörur eins og Selshamurinn og Skegghúfan sem hafa vakið  athygli út um allan heim fyrir frumleika og gæði. Ný og glæsileg vörulína Víkur leit síðan dagsins ljós um daginn og er ljóst að framtíð þessa verkefnis er björt.“  



Vík Prjónsdóttir var stofnuð árið 2005 af prjónaverksmiðjunni Víkurprjón og hönnuðunum Brynhildi Pálsdóttur, Agli Kalevi Karlssyni, Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur, Hrafnkeli Birgissyni og Þuríði Rós Sigurþórsdóttur. Bakgrunnur hönnuðanna er fjölbreyttur; vöruhönnun, tíska, matarhönnun og myndlist. Núverandi meðlimir Víkur Prjónsdóttur eru Brynhildur, Guðfinna og Þuríður.

Víkurprjón hefur gegnt mikilvægu hlutverki í íslenskri ullarframleiðslu frá því að fyrirtækið var stofnað árið 1980. Á níunda áratugnum blómstraði ullariðnaðurinn á Íslandi og Víkurprjón var ein af 30 prjónaverksmiðjum í landinu. Eftir mikið hrun í ullariðnaði á tíunda áratugnum og nánast algjöran samdrátt í útflutningi voru aðeins þrjár verksmiðjur eftir á Íslandi. Þessar döpru fréttir af okkar helsta hráefni varð hvatinn að því að hönnuðunum fannst það skylda sín að sýna fram á ný tækifæri í ullariðnaðinum. Það er þeirra trú að hlutverk þeirra sem hönnuða sé að vinna með tækifærin í nærumhverfi sínu og nýta staðbundið hráefni og aðstæður. Með þetta að leiðarljósi og það að markmiði að glæða nýju lífi í ullariðnaðinn á Íslandi hefur hópurinn þróað óhefðbundnar vörur úr hefðbundnu hráefni sem hlotið hafa lof víða um heim.

vikprjonsdottir.com
sparkdesignspace.com
listasafnreykjavikur.is
lhi.is