Í fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar, Listasafns Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands nk. fimmtudag 11. febrúar kl. 20 í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur, verða skoðuð verkefni Tækniþróunarsjóðs á sviði hönnunar og arkitektúrs.
Sigurður Björnsson, Rannís segir frá Tækniþróunarsjóði og möguleikum á styrkjum vegna verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs.
Róshildur Jónsdóttir vöruhönnuður segir frá verkefninu Skepnu sköpun - Fiskibeinamódel en verkefnið hlaut úthlutun úr sjóðnum árið 2009.
Aðalsteinn Snorrason arkitekt segir frá verkefninu Heilsuhótel í Stykkishólmi sem var úthlutað styrk undir merkjum sjálfbærrar ferðaþjónustu - Öndvegisstyrkir árið 2009. Aðalsteinn er verkefnisstjóri verkefnisins og helstu samstarfsaðilar eru Arkís ehf., Helgi Bjarnason, Ásthildur Sturludóttir, Anna G. Sverrisdóttir, Magnús Bæringsson, Þórunn Sigþórsdóttir og Laufey Haraldsdóttir.
Tækniþróunarsjóður hefur starfað frá árinu 2004, en hann tók við af
Tæknisjóði sem hafði starfað frá árinu 1994. Sjóðurinn heyrir undir
iðnaðarráðherra, en fagleg umsýsla hans er í höndum Rannís. Hlutverk
sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar
sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi, og skal hann taka mið af
og fjármagna verkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs.
Framlag til sjóðsins hefur hækkað jafnt og þétt frá 2004 og stendur nú
í 690 milljónum. Árið 2009 voru tveir nýir flokkar styrkja kynntir til
sögunnar; frumherjastyrkir sniðnir að þörfum sprotafyrirtækja og
frumkvöðla með verkefni á byrjunarstigi og brúarstyrkir fyrir fyrirtæki
sem eru að komast á legg og eru að byggja upp grunnstoðir reksturs og
leggja í sérstakt markaðsátak, auk hinna hefðbundnu verkefnisstyrkja.
www.rannis.is