Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Rosen-Wojnar



Myndlistartvíeykið Rosen/Wojnar sýnir og segir frá verkefnum sínum í hádegisfyrirlestri Opna listaháskólans, í myndlistardeild Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91, nk. mánudag 18. janúar kl. 12.30.

Myndlist Nikolai von Rosen og Florian Wojnar, sem áður störfuðu saman undir heitinu FUTURE7, spannar mörg svið og jafnvel má segja að snertiflöturinn sjálfur, eða bilið á milli heima, sé ákveðinn hugmyndalegur grunnur fjölbreytilegra verkefna þeirra.

Þeir hafa beint sjónum sínum að listheiminum og innviðum hans; galleríum og myndlistarmarkaðinum, útgáfu, sýningarstjórnun, söfnum og söfnurum og skörun myndlistar og arkitektúrs, m.ö.o. hvar við upplifum list og hvaða áhrif umgjörðin hefur á upplifun okkar. 

Í verkum Rosen/Wojnar mætir fjölfeldið því einstaka, hópurinn einstaklingnum og frumsköpun því sem fengið hefur verið að láni, eða verið stolið.

Rosen/Wojnar verða gestir Nýlistasafnins á Listahátíð í vor. Þeir búa í Berlín og reka þar vinnustofu en starfa einnig báðir sem aðstoðarprófessorar við lista- og arkitektadeild ETH Tækniháskólans í Zürich. Nánari upplýsingar um listamennina er að finna á heimasíðu þeirra: http://www.rosen-wojnar.de/

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.