Fyrirlestrar

Fyrirlestur | Snertifletir myndlistar og byggingarlistar

Byggingarlistardeild Listasafns Reykjavíkur stendur að röð fyrirlestra á nýju ári sem hafa það markmið að vekja athygli á listrænum þáttum byggingarlistar.

Þriðji fyrirlesturinn í röðinni verður haldinn fimmtudagskvöldið 30. apríl nk. kl. 20:00 í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.

Þar verður sjónum beint að þriðja grunnþættinum í manngerðu umhverfi okkar, þ.e. umgjörð almennra borgara í byggingum og opnu rými tengdum samskiptum, s.s. verslun og viðskiptum. Steve Christer arkitekt á Studio Granda og Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður kynna þá samstarf sitt við neysluhofið Kringluna, sem tekur til bílastæða, garðs, almenningsrýmis og leyndardómsfullu “tímahylkis” úr menningu okkar. 

Kynningu arkitekta og myndlistarmanna er fylgt úr hlaði með stuttu ágripi Guju Daggar Hauksdóttir arkitekts með dæmum teknum úr byggingarlistarsögunni, sögulegu samhengi og hugmyndafræði á bak við verkin. Í kjölfar fyrirlestranna er hvatt til umræðna og skoðanaskipta eða “forum”  um gildi listrænna þátta í manngerðu umhverfi byggingarlistar.

Umsjón og stjórn Guja Dögg Hauksdóttir, deildarstjóri byggingarlistardeildar