Tilkynning
Byggingarlistardeildin við Listasafn Reykjavíkur var lögð niður um óákveðinn tíma þann 1. mars 2011. Rökstuðningur fyrir lokun deildarinnar og uppsögn deildarstjóra var sparnaður. Engin fréttatilkynning barst frá safnstjóra um þessa stóru ákvörðun, og lítið hefur borið á opinberum viðbrögðum við þessari afdrifaríku ákvörðun sem vegur svo sannarlega að hagsmunum arkitekta á tímum þar sem umræða um mikilvægi góðrar byggingarlistar, rannsóknir og miðlun ætti að vera mikilvægari en nokkru sinni fyrr - þegar algert hrun hefur orðið í stéttinni og fyrirsjáanlegt að ekki verði mikil breyting þar á í bráð.
Byggingarlistardeildin var stofnuð haustið 1993 og skilgreind sem sérstök safneign við Listasafnið. Hún hefur - þrátt fyrir litla fjármuni eða mikla athygli - unnið sig í sessi sem sjálfsagður hluti af menningarstarfsemi þjóðar með ört vaxandi safneign teikninga, líkana, ljósmynda og annarra gagna, sýningarstarfsemi, rannsóknarvinnu, útgáfu, fyrirlestrahaldi o.sv.frv. Deildin var við stofnun hennar skilgreind sem eitt stöðugildi á launakjörum listfræðings/BA gráðu, en hefur notið deildarstjóra með arkitektamenntun/MA gráðu og verið um árabil rekin á 60% stöðuhlutfalli deildarstjóra (ef frá er talið örstutt tímabil þar sem listfræðingur var ráðinn í 20% stöðu). Deildin hefur unnið óháð hagsmunum annarra, en í góðu samstarfi við bæði Arkitektafélag Íslands og Listaháskóla Íslands auk Þjóðminjasafns Íslands, Ljósmyndasafns Reykjavíkur og fleiri opinberra aðila.
Í stefnuskrá fyrir deildina sem undirrituð vann í embætti sínu sem þáver. deildarstjóri byggingarlistardeildar segir m.a.
"Byggingarlistardeild Listasafns Reykjavíkur er ætlað að höndla og varpa ljósi á byggingarlistina með faglegum hætti skv. alþjóðlega skilgreindum vinnubrögðum opinbers safns (International Counsil of Museums). Deildin leitast við að hampa vandaðri byggingarlist og hvetja til uppbyggilegrar umræðu um viðfangsefnið óháð utanaðkomandi hagsmunum.
Markmið byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur er að stuðla að auknum skilningi alls almennings á gildi byggingarlistar fyrir samfélagið, ásamt því að auka vitund borgaranna um mikilvægi bygingarlistar í listrænni menningarstarfsemi þjóðarinnar.
Deildin leitast við að verða vettvangur sérhæfðra rannsókna og miðlunar á sviði byggingarlistar."
Ég viðurkenni fúslega að geta seint talist óhlutdræg með tilliti til þess að tjá mig um þessi ömurlegu örlög deildarinnar sem hefur verið starfrækt af mikilli ástríðu og óeigingjarnri vinnugleði fyrir vegferð byggingarlistar á Íslandi - fyrst af kollega mínum Pétri H. Ármannssyni og síðast af mér, Guju Dögg. Ég geri mér líka grein fyrir því að kreppuna ber víða niður. En ég bendi jafnframt á að sýningar sem unnar hafa verið á vegum byggingarlistardeildar hafa mörg síðustu ár verið fjármagnaðar að megninu til með utanaðkomandi styrkjum (utan þeirra launa deildarstjóra sem fyrr er gert grein fyrir), þ.m.t. stór sýning á verkum norsku arkitektstofunnar Snöhetta sem væntanleg er og sett verður upp í ársbyrjun 2012 - sem var mitt síðasta verk að fá hingað heim fyrir rausnarlegt framlag norska sendiráðsins og Nasjonalmuseet-Arkitektur í Osló.
Ég held því samt sem áður fram af mikilli festu að með gjörningi núverandi safnstjóra Listasafns Reykjavíkur og skilningsleysi hans á mikilvægi byggingarlistardeildar við safnið er stórt og vont skref stigið aftur á bak í málum arkitekta og byggingarlistar hérlendis.En það er ykkar, kæru arkitektar, að bregðast við með þeim hætti sem ykkur finnst hæfa tilefninu.
Með virðingu,
Guja Dögg Hauksdóttir
arkitekt cand.Arch, FAÍ
og fyrrverandi deildarstjóri byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur
www.listasafnreykjavikur.is