Opnunarræða iðnaðarráðherra Katrínar Júlíusdóttur í HönnunarMars 2010

HönnunarMars 2010

Forseti Íslands, borgarstjóri, hönnuðir og aðrir góðir samkomugestir!

Til hamingju með Hönnunarmars 2010. Ég held við getum öll verið sammála um að þessi fjögurra daga hátíð hönnunar og arkitektúrs er ákaflega vel hönnuð.

Hún er farin að skipta miklu máli hér heima og erlendis og virkar bæði sem segull er dregur að og spegill sem endurvarpar í allar áttir. Áreiðanlega er það afgerandi að baki þessum árangri að hönnuðir hafa beitt öllum tækjum í verkfærakistu sinni við undirbúninginn og ekki látið staðar numið við skynræna hönnun og atferlishönnun heldur einnig látið rökræna hönnun, þjónustuhönnun og stefnuhönnun koma við sögu  - svo ég slái um mig með fræðiheitunum.

Ég hef hneigst til þess að líta á hönnun sem mjúkt hugtak og svífandi en þegar betur er að gáð þá snýst málið um ögun hugsunar, rannsóknir, heildarhugsun og gerhygli.

Orðið hönnun kom fyrst fyrir hjá harðnöglunum í Verkfræðingafélagi Íslands, nánar tiltekið í gjaldskrá félagsins. Hinir stórmerku nýyrðasmiðir í Orðanefnd Verkfræðingafélagsins höfðu rekist á dverginn Hannar í dvergatali Völuspár og þannig varð þetta þúsund ára gamla kvæði uppsprettan að íslensku hugtaki yfir það sem á ensku kallast design.  Það á sér sínar djúpu goðfræðilegu rætur því dvergar voru í norrænni goðafræði þjóðhagir völundarsmiðir sem bæði smíðuðu  dýrgripi fyrir guðina og hamra til þess að berja á tröllum. Er það ekki einmitt það sem hönnuðir gera í dag?  Hönnun er því svo sannarlega bæði mjúk og hörð.

Rannsóknir, þróun og nýsköpun eru lykilorðin sem mynda kjarnann í atvinnustefnu næstu áratuga. Þekkingin mun knýja atvinnulífið áfram. Það sem knýr samfélagið er þekking og hugmyndir en hvort tveggja byggir á framsækinni menntun og fræðslu. Við þurfum að stórauka samstarf Listaháskólans við viðskiptaháskóla og tækniskóla okkar um hlut hönnunar í atvinnuþróun.  Og ekki má dragast að koma á meistaranámi í hönnun og arkitektúr og efla rannsóknarstarf á sviði hönnunar við Listaháskólann.

Hin öfluga Hönnunarmiðstöð sem við eigum mjög gott samstarf við og tókst að koma á laggirnar með sameiginlegu átaki er bæði staðfesting á því að skilningur er að aukast á gildi hönnunar í þessu samhengi og um leið er hún helsta tæki okkar til þess að auka veg hönnunar í íslensku atvinnulífi. Hönnun sækir á um allan heim sem skapandi auðlind og hönnun er órjúfanlegur grunnþáttur í nýsköpunarstefnu þjóðarinnar sem á allsstaðar að koma við sögu.

Í morgun átti ég mjög góðan fund með framkvæmdastjóra Danish Design Center,  Christian Sherfig um mótun íslenskrar hönnunarstefnu. Við eigum að koma okkur upp slíkri stefnu eins og margar aðrar þjóðir hafa gert á síðustu áratugum. Við eigum að sækja í brunn Dana sem eru framarlega í nýsköpun og sprotum og hönnun og arkitektur og tengja þannig hönnuði saman.  Ég hlakka til samstarfs við hönnuði um það verkefni.

Í þeirri vinnu sem nú stendur um allt land við Sóknaráætlun 20/20 virðast allir vera sammála um að ferðaþjónusta sé það sem koma skal. Við erum að gera ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi úr fimm hundruð þúsund í eina milljón til 2020. Hvernig eigum við að taka á móti helmingi fleiri ferðmönnum en nú án þess að af verði landsspjöll eða útrýming á þeim sérkennum og upplifunum sem laða þá hingað?

Ég vil að Hönnunarmiðstöð, Listaháskólinn, Nýsköpunarmiðstöð, Ferðamálastofa, iðnaðarráðuneytið, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands  og háskólarnir efni til  samstarfs um að svara þessari spurningu. Ég er sannfærð um að til þess að vel fari þurfum við nýja sýn á viðfangsefnið, skapandi hugsun sem opnar nýjar víddir. Þess vegna verða hönnuðir að koma til liðs því þeir spila lykilhlutverk í að styrkja, skapa og það er uppistaðan.

Hugsanlega gæti fyrsta skrefið verið vel undirbúin frjáls hugmyndasamkeppni um allt frá minjagripum til þróunar nýrra ferðamannastaða mannvirkjagerðar og nýrrar sýnar á hvað við höfum að bjóða sem sé eftirsóknarvert.  Áleitin spurning í þessu efni er hvernig við komum á heilsársferðamennsku á Íslandi til þess að nýta mannvirki og mannskap allt árið og vera í stakk búin til þess að mæta fjölgun ferðafólks. Hönnunin á að koma inn í grunninn á þessari vinnu en ekki aðeins að fást við útlitið.

Hönnunin er það sem tengir sköpunarkraft og nýsköpun frá hugmynd til markaðar. Áttatíu prósent af umhverfisáhrifum vöru ákvarðast á hönnunarstigi. Við getum dregið stórlega úr efnissóun og orkuflæði með sjálfbærri hönnun.  Þess vegna þarf hönnunin að koma inn á frumstigi nýsköpunar en ekki sem redding eða viðbót á síðari stigum.

Sú spurning vakir í hugum margra hvort hér sé að þróast eitthvað sem gæti gengið undir samheitinu íslensk hönnun með svo sterkum einkennum að hún sé auðþekkjanleg um allan heim. Erum við kannski alveg að slá í gegn á þessu sviði? Hönnun að skila okkur góðri ímynd Íslands og spila stórt hlutverk í þjóðarhag.

Þarna verðum við áreiðanlega að fara varlega í fullyrðingum, en maður veltir því fyrir sér í þessu sambandi hvað sé alveg sérstaklega einstakt fyrir Ísland. Ég segi veðrið og birtan. Útlendingar hafa lengi sagt að það sé ekkert veður á Íslandi, bara sýnishorn af veðri. Við svörum á móti að það sé alltaf gott veður á Íslandi – einhverntíma á sólahringnum.  Hið síbreytilega veður og síflöktandi birta gerir hvern sólarhring að ævintýri á Íslandi – fyrir okkur náttúrlega sem fáum þetta ókeypis – en ekki síður fyrir útlendinga. Og þetta er sameiginlegt einkenni allra árstíða á hinni miklu úthafseyju okkar. Má ekki sjá þessa merki í íslenskum arkitektur? Sjáum hvernig árstíðirnar speglast í Ráðhúsi Reykjavíkur og ímyndum okkur hvernig birtan muni leika á Hörpuna hans Ólafs Elíassonar við Reykjavíkurhöfn!  Þetta er ákaflega íslenskt en um leið sígilt, því ljósið, elsta dóttir Guðs, er fegurðardísin í hverri byggingu, eins og sagt hefur verið.

Góðir áheyrendur!

Ég óska ykkur velgengni með HönnunarMars 2010 og veit að hann á eftir að þróast í það að vera meðal helstu viðburða hvers árs.  Fátt hefur glatt mann eins mikið í kreppunni eins og að fylgjast með góðum árangri margra íslenskra fata- , vöru- og húsgagnahönnuða og arkitekta á alþjóðlegum vettvangi, og sjá glæsilegar sýningar á íslenskri samtímahönnun. Ég var stolt við opnun íslenskrar hönnunarsýningar í DDC. Umfjöllun um íslenska hönnun  hefur einnig verið áberandi í alþjóðlegum fjölmiðlum og fagtímaritum. Þetta er allt til vitnis um þann kraft sem er í greininni um þessar mundir. Það liggur kannski nokkuð í þeirri fullyrðingu að hægt sé að skapa sig út úr efnahagsvandanum.

Þegar ég lít yfir þann hóp sem hér er í kvöld þá  er ómögulegt annað en að fá trú á það að Ísland muni eiga sér  bjarta og vel hannaða framtíð.


http://www.idnadarraduneyti.is/radherra/raedur-greina-KJ/nr/2867