Hönnun og nýsköpun á krepputímum | Dennis Davíð Jóhannesson
Kreppan í Finnlandi
Nú í upphafi einnar alvarlegustu kreppu sem yfir Íslendinga hefur dunið, er mikið rætt um finnsku leiðina út úr kreppunni og sýnist sitt hverjum. Ég var staddur í Helsinki árið 1992, í miðri kreppunni, til að kynna mér hönnun og framleiðslu húsgagna. Dvölin var afar lærdómsrík en það sem vakti þó sérstaka athygli mína var hversu dauflegt mannlífíð var í Helsinki. Ég áttaði mig fljótlega á því að ástandið var grafalvarlegt. Fjöldi atvinnulausra var ráfandi á götum úti, sumir drukknir og illa útlítandi. Byggingar voru víða útataðar veggjakroti. Finnar voru heldur fámálir um ástandið eins og Finna er siður. Finnland var á botninum í mjög alvarlegri kreppu. Atvinnuleysið fór yfir 18% á landvísu og erfitt að sjá að stjórnvöld væru að bregðast vel við ástandinu og enn þann dag í dag er atvinnuleysið hátt. Það segir auðvitað sína sögu um finnsku leiðina. Það má þó ýmislegt læra af reynslu Finna, bæði af mistökum þeirra og því sem vel tókst til. Þá er mér ofarlega í huga hvernig þeir nýttu sér hönnun og nýsköpun í atvinnulífinu til að vinna sig út úr vandanum.
Hönnun og nýsköpun í Finnlandi.
Árið 1994 tók ég þátt í samnorrænni hönnunarsýningu í gömlu Nokia kapalverksmiðjunni í Helsinki. Þar hitti ég marga finnska hönnuði og er mér sérlega minnistætt samtal sem ég átti við Vuokko, frægan textílhönnuð, sem sagði mér að fyrirtækið sitt hefði orðið gjaldþrota í upphafi kreppunnar eins og svo mörg önnur góð fyritæki, en Vuokko var ekki af baki dottin og var nú búin að stofna nýtt fyrirtæki. Hún var full bjartsýni á framtíðina og sagði að nú yrðu Evrópuþjóðirnar að standa saman í aukinni samkeppni við Kína og væri góð hönnun og vöruvöndun sterkasta vopnið í þeirri samkeppni. Finnland væri á leið inn i Evrópusambandið og Evrusvæðið og nú væri komin opinber atvinnustefna sem byggði á hönnun og nýsköpun. Í stað þess að láta hönnuði og arkitekta ganga um atvinnulausa, voru þeim nú boðnir styrkir til að þróa hugmyndir og nýjar vörur í samvinnu við framleiðendur. Hönnunarmiðstöðin Design Forum Finland, sem rekin er með framlögum frá ríkinu, gegndi þarna lykilhlutverki í að auka skilning á mikilvægi góðrar hönnunar fyrir samkeppnishæfni atvinnulífsins. Árangurinn lét ekki sér standa. Finnskar vörur eru þekktar um allan heim fyrir gæði og góða hönnun og er Nokia farsíminn sjálfsagt þekktasta dæmið, en þar sameinast vönduð hönnun og hátækni. Finnska hönnunarmiðstöðin er með þá metnaðarfullu sýn að Finnland verði eitt af fremstu hönnunarlöndum í heiminum fyrir árið 2010. Finnar virðast vita hvert þeir eru að fara og komast því væntanlega á leiðarenda.
Hvert stefna Íslendingar?
Á árunun 1990-95 var einnig djúp efnahagslægð á Íslandi og töluvert atvinnuleysi. Ég var þá fulltrúi Arkitektafélags Íslands í tveimur vinnuhópum um átak í atvinnusköpun á vegum Iðnaðarráðuneytisins. Mér var ofarlega í huga reynsla Finna og þær leiðir sem þeir völdu til atvinnuuppbyggingar og lagði ég m.a. til ásamt öðru góðu fólki að hér yrði komið á fót íslenskri Hönnunarmiðstöð að fyrirmynd þeirrar finnsku. Þessum hugmyndum var vel tekið í orði en í verki varð lítið um efndir. Á þeim árum voru ráðamenn með augun annar staðar. Félag hönnuða Form Ísland og aðrir áhugamenn um hönnun hafa síðan haldið hugmyndinni vakandi og það var loks árið 2008 að skrifað var undir þjónustusamning milli Iðnaðar- og Menntamálaráðuneytisins annars vegar og níu félaga hönnuða og arkitekta hins vegar um rekstur Hönnunarmiðtöðvar Íslands. Langþráður draumur hönnuða og arkitekta hafði ræst og þeir vænta nú mikils af starfseminni.
Í upphafi þeirrar kreppu sem nú er að skella á með fullum þunga, bendir margt til þess að íslenskt atvinnulíf standi á krossgötum nýrra leiða og tækifæra ef rétt er á málum haldið. Hönnun er auðlind sem mikilvægt er að nýta. Þær iðnvæddu þjóðir sem eru að ná hvað mestum árangri, leggja áherslu á hönnunarþáttinn í nýsköpun og vöruþróun. Erlendar rannsóknir staðfesta að kostnaður við hönnun í samanburði við aðra framleiðsluþætti er tiltölulega lítill, en af einstökum verkþáttum þá er hönnunin sá þáttur sem skilar mestri arðsemi. Slíkar niðurstöður hljóta að vera áhugaverðar fyrir Íslendinga.
Hér á landi er fjöldi vel menntaðra og hæfileikraríka hönnuða og arkitekta. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt þjóðfélag að nýta þekkingu þessa fólks sér til framdráttar. Ber þar skemmst að minnast Steinunnar Sigurðardóttur, sem nýlega fékk sænsku Söderbergs-verðlaunin fyrir fatahönnun, en þetta eru ein virtustu hönnunarverðlaun í heiminum. Fyrir fimm árum síðan fékk arkitektinn Sigurður Gústafsson sömu verlaun fyrir húsgagnahönnun.
Hönnun tengist allri atvinnustarfsemi, svo sem byggingariðnaði, framleiðsluiðnaði, sjávarútvegi, ferðamannaiðnaði, matvælaiðnaði, þjónustu og þekkingariðnaði o.s.frv. Hönnun nýtist ekki aðeins innlendri framleiðslu heldur er einnig hægt að flytja hana út í formi hugvits. Mikilvægi þess að auka hlutdeild hönnunar í nýsköpun íslensks atvinnulífs er því augljós ekki síst nú þegar kreppir að.
Höfundur er sjálfstætt starfandi arkitekt og situr í stjórn Hönnunarmiðstöðvar Íslands.